fimmtudagur, apríl 02, 2009

Sjáðu stóra typpið mitt

Typpaþráhyggja karlmanna er eitthvað sem mörgum þykir ansi furðulegt fenómen.

Það er með ólíkindum hvað margir geta verið upptekinir af stærðinni en þetta sýnir sig og sannar t.d. á öllum þessu "increase your penis size" póstum sem streyma í hólf heimsins.
Konur eru hinsvegar talsvert minna uppteknar af þessu en karlar.

"It's not the size of the ship but the motion of the ocean". Þetta virðumst við vita. Öfugt við strákana.

Ég hef löngum furðað mig á þessum undarlega kúltúr en vinur minn sagði mér svolítið um daginn sem sló flestar typpasögur út. Hann sagði mér að hnakkarnir í ræktinni, þessir brúnu sem dýrka útlitið ofar öllu öðru, eigi það til að dangla svolítið duglega í spenann á sér áður en haldið er í sturtuklefann. Svona til að hann virki aðeins stærri.

WHDF?!?!

TIL HVERS? Hvernig í ósköpunum getur það skipt máli að einhverjum karli í sturtu finnist getnaðarlimur bláókunnugs manns stór, eða lítill, eða miðlungs, eða whatever? Ég meina... döh?

Skrítna kyn. Skrítna furðulega keppnis kyn sem keppir líka í því sem er ekki hægt að keppa í.

Fyrir utan þetta þá þætti þeim kannski fróðlegt að heyra hvað Kama Sutra segir um stóra limi.

Menn með stóra limi eiga að finna sér konur með stór kynfæri. Öðruvísi fá þeir ekki eins mikið út úr samlífinu... og ekki konurnar heldur. Tröllkarlar eiga að vera með skessum.

Þannig að wannabe tröllkarla hnakkinn í sturtunni ætti beisikklí að finna sér eina væna skessu að leika sér við  - ef hann er virkilega að meina eitthvað með þessu.


Maðurinn hér til hægri er augljóslega ekki hnakki. Honum er slétt sama.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

The Blame Game

Jæja, ég var að horfa á Gobba og Obba halda ræður í tilefni af alþjóðlegum leiðtogafundi sem fer nú fram í London. Blaðamaður í krádinu spurði Gordon af hverju hann hefði kennt Bandaríkjastjórn um kreppuna.

Gordon varð vandræðalegur og sagði að þegar hann hafi verið í verkalýðsflokki hafi hann kennt ríkisstjórninni um "...en þegar maður fer svo í ríkisstjórn þá kennir maður öðrum löndum um." Svo brosti hann til Obama sem sagði að vissulega þyrftu kanar líka að líta í eigin barm og taka allt til gagngerrar endurskoðunar, eða gera "inventory" eins og hann orðaði það. Hann benti á að á meðan bankakerfið þandist upp og dreifði sér þvers og kruss um heiminn hafi eftirlit með því brugðist. Áhrifin eins og dómínóspil. En hvað "sökudólginn" varðar sagði þessi fallegi nýi Bandaríkjaforseti orðrétt:

"I'm less interested in identifying blame than fixing the problem."

...og undir þessi orð hans tek ég heilshugar. Vona að þú gerir það líka.

Við erum ekkert að fara að leysa þessa kreppu með því að láta eins og smákrakkar og reyna að klína öllu á hann Davíð litla Oddsson og félaga. Hún lagast ef fólk tekur höndum saman og ef hver og einn leggur sitt af mörkum til að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, ef hver og einn gerir það sem hann eða hún getur gert til að minnka skaðann.

Og það er ótal margt hægt að gera. 

Allt telur. Byrjaðu að hugsa núna um hvað þú, upp á eigin spýtur, getur gert.


þriðjudagur, mars 31, 2009

Þetta er ÞÉR að kenna!

Nú er mikið galað um það í kringum mig að kreppan á Íslandi sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Af því við kusum hann flest í átján ár og hann "kom okkur í þessa klípu".

Og þá hata allir Sjálfstæðisflokkinn og líka Davíð, sem var þó mest áberandi af öllum í því að reyna að sporna við hringamyndunum og öðru. Skotskífan fest á hann og síðan hefur verið dritað daginn út og inn með ótrúlegum tilþrifum. Á landsfundi xd liðsins talaði karlinn sem var rekinn úr vinnunni og sagði allt sem hann lagaði til að segja. A la... "Fuck you all, I can say what I want". Ég sá allavega ekki betur. Bitur, leiður og reiður. Og hver myndi ekki vera það í hans sporum?

Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að skella skuldum á einn eða neinn og mér hefur alltaf þótt það lélegur og barnalegur leikur að æpa "þetta er þér að kenna!" vegna þess að með því er fólk að firra sig ábyrgð á eigin vali. Við erum okkar eigin gæfusmiðir og hljótum meðvitað, eða ómeðvitað, að koma okkur í þá vinnu, það hjónaband, þann vinskap eða það þjóðfélag sem við finnum okkur í.

Sjálfstæðisflokknum var árum saman treyst til þess að byggja hér upp gott þjóðfélag og hann var kosinn sí ofan í æ vegna þess að árangurinn af því sem hann gerði virtist sanna sig í því að hér hafði fólk vanalega bara áhyggjur af þyngdinni og að hafa þurft að sitja of lengi á koppnum í æsku. Semsagt, ekki stór áhyggjuefni í tuttugu ár.

En núna virðast allir hata xd og sörfa á vinstriöldunni af lífi og sál.

Í ljósi þess að það er ekki bara kreppa á Íslandi heldur í öllum heiminum leikur mér forvitni á að vita hver staðan er á þeim löndum þar sem fram að kreppu var ríkjandi vinstristjórn. Þá er ég ekki að tala um Kúbu heldur Evrópulöndin. Ég er ekkert sérfróð um alþjóðastjórnmál en ef þú lesandi góður ert það... þá máttu gjarna upplýsa mig um þetta mál.

Mér finnst bara svo erfitt að skrifa alla sektina á einn flokk, sem var þó árum saman kosinn aftur og aftur. Með þessu er ég ekki að gefa út neinar yfirlýsingar um það í hvaða átt ég halla mér í mínum persónulegu skoðunum. Ég er bara að pæla:

Er klípan sem við finnum okkur í virkilega bara einum flokki "að kenna"... og hvernig er kreppan hjá vinstristjórnum heimsins?


Hér er mynd af Magnúsi Guðmundssyni sjálfstæðismanni . Hann mun vera meðal þeirra örfáu íslensku ráðherra sem hafa sagt af sér. Hann var, sem dómsmálaráðherra, dæmdur í fangelsi af manni sem var bæði lögreglustjóri og æðsti dómari og meðan málið var til meðferðar hjá hæstarétti sagði Magnús af sér. Síðar var hann sýknaður af öllum ákærum. 

Hver er sekur og hver saklaus?

Jesús og kynlífið

Nýverið hef ég hvatt tvær konur til að fjarlægja jesúkrossa úr svefnherbergjum sínum.

Í öðru tilvikinu var Jesúinn stór og útskorinn þannig að ekkert fór á milli mála hvað manninum leið illa, hangandi svona hálfnakinn og búinn-áðí-fyrirsyndirmannanna beint yfir andliti þess sem lá í bólinu.

Í hinu tilfellinu hékk hann greyið yfir svefnherbergisdyrunum. Yfir rúminu hékk svo fremur væmin mynd af síðustu kvöldmáltíðinni.

Svona gripir eiga akkúrat ekkert erindi inn í svefherbergi fólks... hvað þá hjónaherbergi!

Þjakaður og uppþornaður maður á krossi er mjög langt frá því að vera kynæsandi og hvað á fólk að vera að velta syndum sínum fyrir sér þegar það fer upp í rúm? Það kallar bara á andvökur og vesen.

Hann Jesú okkar má gjarna vera með, en bara ekki þar sem fólk vill fara í sleik eða sofa vel.

Þá á hann að vera úti.

mánudagur, mars 30, 2009

Teknó fyrir 4 ára

Með því skemmtilegasta sem ég gerði í síðustu viku var að leyfa fjögurra ára dóttur minni og jafngömlum frænda hennar að hlusta á lagið Dark and long með Underworld í heyrnartólum af bestu sort.

Þau fíluðu lagið vægast sagt vel. Stóðu þarna undir tölvuborðinu, komust í stuð, byrjuðu að dilla sér og skiptust svo á að hlusta meðan þau dönsuðu með stóru græjuna á litlu höfðunum. Vú hú. Dúó-reif í heimahúsi!

21 aldar-ungar eru nefninlega vel undirbúnir fyrir teknó. Þau eru með það í erfðaminninu. Það eru rúm þrjátíu ár síðan Kraftverk fóru á kreik.

Sjálfri er mér lífsins ómögulegt að fá nóg af Underworld og plötunni Dubnobasswithmyheadman. Hef t.d. enn ekki fundið betri tónlist til að taka með í ræktina.

Það er bezt að hlusta á þetta í almenninlegum tólum... og dilla sér.

Íslensk hetjumynd

Minn kæri frændi og uppeldisbróðir Sigurgeir Orri var að ljúka við að gera heimildarmynd um Alfreð Elíasson og Loftleiðir.

Hann Orri er mikill athafnabókaormur og framkvæmir yfirleitt alltaf það sem honum dettur í hug. Stundum hefur hann framkvæmt mjög furðulega hluti, stundum höfum við frændsystkin framkvæmt furðulega hluti... en þessi mynd er samt ekkert furðuleg. Bara fín.

"Hæ fræ, eigum við að koma í kaffi?"
"Nei, ég hef ekki tíma núna. Ég er að keyra út í Hafnarfjörð að ná í átta millimetra litmyndir sem einhver hjá Loftleiðum tók árið 65".
"Ok, seinna þá..."
"Já, endilega"

En núna er myndin tilbúin og mér finnst eins og það hafi gerst á hárréttum tíma. Ekki það að ég hafi verið að biðja um kreppu... en myndin segir sögu af mönnum sem létu ekkert stöðva sig þó móti blési. Hvort sem um var að ræða  spillta stjórnmálamenn, gjaldeyrishöft eða kreppu þá keyptu þeir sínar flugvélar og fóru sínar leiðir með góðum  árangri... (eða þangað til minkarnir komust að með charlatan plottin sín ).

Okkur veitir ekkert af því að sjá svona sögu nú í dag þegar margir eru með skeifu niður á hné af svartsýni.

Hér er treiler úr myndinni. Mér skilst að hún verði sýnd á novelty sýningum í bíó í maí og síðar í sjónvarpinu.

sunnudagur, mars 29, 2009

Love letters

Þetta lag heyrði ég fyrst þegar ég fór á Blue Velvet í Nýja bíó og hefur það verið í miklu uppáhaldi hjá mér æ síðan. Í nútímanum gæti lagið heitið: Text messages... straight from your heart. En það hljómar kannski ekki eins vel...

Ketty Lester er falleg sjálf, eins og lagið og röddin.

Auður og lífeyririnn minn

Ég ætla að færa allann lífeyrissparnaðinn minn til Auðar Capital. 

Ég og vímurnar mínar

Svona til að við séum með þetta allt á hreinu þá vil ég koma því á framfæri, vons end for oll, að ég er bindindismanneskja eins og Ómar Ragnarsson. Ég hvorki reyki gras né drekk áfengi. Hef unnið fyrir góðtemplarana í IOGT (dásamlegt fólk) og lesið mikið um áfengismál og annað því tengt. M.a. farið á nokkuð marga internasjónal fyrirlestra um þessi mál.
Kannski er það vegna þessa sem ég sé lítinn mun á vímuefnunum?
Þetta er í raun allt sama djókið fyrir mér. Efni sem ræna fólk rænunni.
Ef ég er gúggluð ætti að koma upp grein sem ég skrifaði í moggann fyrir mörgum, mörgum árum um áfengissölu í matvöruverslunum. Er enn á sömu skoðun.

Fyrir utan sjálfstæða vinnu við ritstjórn og blaðamennsku hef ég undanfarið ár starfað við kynningarmál fyrir íþróttahreyfinguna í Reykjavík. Svo stunda ég líkamsrækt 4-6 sinnum í viku. Gæti ekki án þess verið. Það er víma.

Eftirlætis vímurnar mínar eru ástar, endorfín, tónlistar- og dansvíma. Svo finnst mér gaman að keyra góða bíla  og hlusta á tónlist. Fer í smá trans af því. Lexus er t.d. mjög góð víma. Og að fara í útreiðartúra. Er að spá í að fara á golfnámskeið í sumar til að geta bondað meira við fjölskylduna mína. Það gæti orðið víma (altso golfið...ekki bondið).

Þar hefurðu það.

laugardagur, mars 28, 2009

Gelgjur

Eruð þið, kæru lesendur, til í að hætta þessum barnalega Liverpool vs. Man U fíflagangi í sambandi við stjórnmálin og flokkana á kommentakerfinu mínu?

Þetta er á svo lágu plani að mig langar helst að heilsa upp á postulínið. Hér eru að koma svo ignorant komment að manni er skapi næst að halda að það séu krúnurakaðir ofsatrúar nýnasistar á lyklaborðinu en ekki menntaðir íslendingar úr misfínum úthverfum.

Hvað er málið með þessi trúarbrögð? Hvernig í ósköpunum getur einhver einn fokking flokkur verið handhafi sannleikans og aðrir flokkar gersamlega úti að...?

Eigum við kannski að hanna búninga á fylgismenn fjórflokkanna? Bláa fyrir Sjálfstæðismenn, Rauða á Samfylkinguna, Græna á hippana og mintu græna á Framsókn. Axlabönd og stígvél? Sixpensara? Stuttbuxur? Usss.... og svo fight club á Klambratúni á Laugardögum?

Hrynur heimurinn ef maður hangir ekki pikkfastur innan ofsatrúar á einhvern flokk, hvort sem hann er hægri, vinstri, undan, ofan eða á ská? Erum við að spila fótbolta eða hugsa um velferð þjóðar?

Er ekki í lagi?

Væri Gunnar í Krossinum kannski góður forsprakki stjórnmálaafls? Ég er ekki frá því.

Af broshýrum reyr

Kannabisræktun er landabrugg 21 aldarinnar.

Ríkið hefur lögleitt vímuefnið áfengi og situr eitt að sölu þess og dreifingu. Hvers vegna ekki kannabis líka?

Þau sem til þekkja, hafa búið utan eyjunnar og kalla ekki allt ömmu sína (t.d. Clinton og Obama) vita að kannabis er ekki hættulegra en áfengi. Í raun er það talsvert skaðlausara.

Það eru ekki margir sem fá sér jónu og fara út að nauðga og berja. Nei. Fólk fær sér jónu, sekkur ofan í sófa með snakkpoka og hlustar á Pink Floyd, fer í sleik eða horfir á Twin Peaks.

Þetta tal um að kannabis sé intró í sterkari efni er líka bullshit sem á ekki við nein rök að styðjast. ÁFENGI er intróið að sterkari efnum. Þannig er það bara og ekki reyna að halda öðru fram.

Meira hvað veðrið er óákveðið.

Mikið var hann Davíð hress á fundinum áðan. Gott að hann hafi núna tíma til að skrifa bækur.

Mig dreymdi ungling sem spilaði magnað tónverk á búsáhöld í boði Hugmyndaráðuneytisins í gær.

Ég ætla að fá mér sushi í kvöld. Ekki jónu. Okbæ!

***


Í bláum skugga, af broshýrum reyr.
Við eigum pípu, kannski' eilítið meir.
Við eigum von og allt sem dæmt og deyr.

Við áttum kaggann, þúfur og þras.
Og kannski dreitil í tímans glas.
En hvað er það, á við gott lyfjagras?

Og þegar vorið kemur á kreik.
Þá tek ég flugið, og fæ mér reyk.
Hann er mín trú, og festa í lífsins sleik.

...og ekkert rugl!

Ríki sitt
skyli ráðsnotra hver
í hófi hafa.
Þá hann það finnur
er með fræknum kemur
að engi er einna hvatastur.

XO

föstudagur, mars 27, 2009

Finnurðu muninn? XO

Það er þetta með Vilmundarflokkinn eða Borgarahreyfinguna.

Ég veit að ég er ekki að fara að leysa heimskreppuna með því að kjósa Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna í næstu kosningum.
Ég er heldur ekki að fara að leysa kreppuna á Íslandi.
Með því að gefa þeim atkvæði mitt er ég eina ferðina enn að kjósa FLOKK sem er bara flokkur með öllu því fokki sem flokkum fylgja. Mannlegum brestum á borð við valdagræðgi, tækifærismennsku, eigin hagsmunapoti og fleiru...

Þegar kreppan skall á flaut spillingarkúkurinn upp á yfirborðið í íslensku samfélagi. Þá sáu allt í einu allir eitthvað sem við Vilmundur (og nokkrir fleiri) höfðum séð lengi (blessuð sé minning hans).

Ég var alveg æpandi mig hása í mörg ár yfir vitleysunni, bæði hér á blogginu og annarsstaðar, yfir tengslum og samráði og fleiru en leið eins og ég væri alltaf ein að æpa. Það er glatað að vera einn að æpa. Það er glatað að vera barnið og horfa á keisarann koma þrammandi berrassaðan niður Laugaveginn.

Núna sjá þetta hinsvegar allir. Af því við brunuðum með keisaranum á vegg á 140 km pr hr og nefbrotnuðum. Fengum hellu fyrir eyrun. Brotna framtönn. BAMM -Kreppa!

Og rumskið varð svo hrikalegt að núna sýnist mér fólk hálf hysterískt af tenglsa-vensla-klíku-hagsmuna-plotts paranoiu. Eiginlega er þetta komið út í öfga sýnist mér... en allavega... aftur...

Ég er ekki að fara að kjósa burtu heimskreppu með því að gefa einum af flokkunum fjórum atkvæði mitt en ég GET HINSVEGAR kosið burtu sér íslenskt kjaftæði (eða sikileyskt) með því að gefa Borgarahreyfingunni atkvæði mitt.

Þau vilja m.a. ráðherrar hætti að leika sér í "musical chairs" þegar það kemur að ráherrastólum. S.s. að þeir hafi ekki leyfi til að stökkva á milli stóla og geti þannig verið við völd svo áratugum skiptir. Þau vilja leyfa okkur að kjósa fólk en ekki flokka, aðskilja löggjöf og framkvæmd og margt fleira sniðugt. 

Og þegar markmiðum hreyfingarinnar hefur verið náð mun hún lögð niður.

Ef við kjósum áfram flokkana þá finnum við engan mun. Þá verður þetta enn sama hagsmunapotsúpan. Sama ruglið.

Ef við kjósum Borgarahreyfinguna þá erum við að kjósa nýtt kerfi sem hentar betur þessari litlu, agnarsmáu þjóð sem er líkari ættbálki en nokkru öðru. Þá kjósum við burtu það sem nýtist okkur ekki lengur - hrossakaup og frímúrarasamninga.

Kjósum nýtt og betra lýðræði fyrir börnin okkar. Heilbrigðari starfshætti. Heilbrigðari þjóðarsál á 21 öld. Borgarahreyfinguna.