þriðjudagur, mars 31, 2009

Þetta er ÞÉR að kenna!

Nú er mikið galað um það í kringum mig að kreppan á Íslandi sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Af því við kusum hann flest í átján ár og hann "kom okkur í þessa klípu".

Og þá hata allir Sjálfstæðisflokkinn og líka Davíð, sem var þó mest áberandi af öllum í því að reyna að sporna við hringamyndunum og öðru. Skotskífan fest á hann og síðan hefur verið dritað daginn út og inn með ótrúlegum tilþrifum. Á landsfundi xd liðsins talaði karlinn sem var rekinn úr vinnunni og sagði allt sem hann lagaði til að segja. A la... "Fuck you all, I can say what I want". Ég sá allavega ekki betur. Bitur, leiður og reiður. Og hver myndi ekki vera það í hans sporum?

Ég hef aldrei verið mikið fyrir það að skella skuldum á einn eða neinn og mér hefur alltaf þótt það lélegur og barnalegur leikur að æpa "þetta er þér að kenna!" vegna þess að með því er fólk að firra sig ábyrgð á eigin vali. Við erum okkar eigin gæfusmiðir og hljótum meðvitað, eða ómeðvitað, að koma okkur í þá vinnu, það hjónaband, þann vinskap eða það þjóðfélag sem við finnum okkur í.

Sjálfstæðisflokknum var árum saman treyst til þess að byggja hér upp gott þjóðfélag og hann var kosinn sí ofan í æ vegna þess að árangurinn af því sem hann gerði virtist sanna sig í því að hér hafði fólk vanalega bara áhyggjur af þyngdinni og að hafa þurft að sitja of lengi á koppnum í æsku. Semsagt, ekki stór áhyggjuefni í tuttugu ár.

En núna virðast allir hata xd og sörfa á vinstriöldunni af lífi og sál.

Í ljósi þess að það er ekki bara kreppa á Íslandi heldur í öllum heiminum leikur mér forvitni á að vita hver staðan er á þeim löndum þar sem fram að kreppu var ríkjandi vinstristjórn. Þá er ég ekki að tala um Kúbu heldur Evrópulöndin. Ég er ekkert sérfróð um alþjóðastjórnmál en ef þú lesandi góður ert það... þá máttu gjarna upplýsa mig um þetta mál.

Mér finnst bara svo erfitt að skrifa alla sektina á einn flokk, sem var þó árum saman kosinn aftur og aftur. Með þessu er ég ekki að gefa út neinar yfirlýsingar um það í hvaða átt ég halla mér í mínum persónulegu skoðunum. Ég er bara að pæla:

Er klípan sem við finnum okkur í virkilega bara einum flokki "að kenna"... og hvernig er kreppan hjá vinstristjórnum heimsins?


Hér er mynd af Magnúsi Guðmundssyni sjálfstæðismanni . Hann mun vera meðal þeirra örfáu íslensku ráðherra sem hafa sagt af sér. Hann var, sem dómsmálaráðherra, dæmdur í fangelsi af manni sem var bæði lögreglustjóri og æðsti dómari og meðan málið var til meðferðar hjá hæstarétti sagði Magnús af sér. Síðar var hann sýknaður af öllum ákærum. 

Hver er sekur og hver saklaus?