föstudagur, mars 27, 2009

Finnurðu muninn? XO

Það er þetta með Vilmundarflokkinn eða Borgarahreyfinguna.

Ég veit að ég er ekki að fara að leysa heimskreppuna með því að kjósa Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna í næstu kosningum.
Ég er heldur ekki að fara að leysa kreppuna á Íslandi.
Með því að gefa þeim atkvæði mitt er ég eina ferðina enn að kjósa FLOKK sem er bara flokkur með öllu því fokki sem flokkum fylgja. Mannlegum brestum á borð við valdagræðgi, tækifærismennsku, eigin hagsmunapoti og fleiru...

Þegar kreppan skall á flaut spillingarkúkurinn upp á yfirborðið í íslensku samfélagi. Þá sáu allt í einu allir eitthvað sem við Vilmundur (og nokkrir fleiri) höfðum séð lengi (blessuð sé minning hans).

Ég var alveg æpandi mig hása í mörg ár yfir vitleysunni, bæði hér á blogginu og annarsstaðar, yfir tengslum og samráði og fleiru en leið eins og ég væri alltaf ein að æpa. Það er glatað að vera einn að æpa. Það er glatað að vera barnið og horfa á keisarann koma þrammandi berrassaðan niður Laugaveginn.

Núna sjá þetta hinsvegar allir. Af því við brunuðum með keisaranum á vegg á 140 km pr hr og nefbrotnuðum. Fengum hellu fyrir eyrun. Brotna framtönn. BAMM -Kreppa!

Og rumskið varð svo hrikalegt að núna sýnist mér fólk hálf hysterískt af tenglsa-vensla-klíku-hagsmuna-plotts paranoiu. Eiginlega er þetta komið út í öfga sýnist mér... en allavega... aftur...

Ég er ekki að fara að kjósa burtu heimskreppu með því að gefa einum af flokkunum fjórum atkvæði mitt en ég GET HINSVEGAR kosið burtu sér íslenskt kjaftæði (eða sikileyskt) með því að gefa Borgarahreyfingunni atkvæði mitt.

Þau vilja m.a. ráðherrar hætti að leika sér í "musical chairs" þegar það kemur að ráherrastólum. S.s. að þeir hafi ekki leyfi til að stökkva á milli stóla og geti þannig verið við völd svo áratugum skiptir. Þau vilja leyfa okkur að kjósa fólk en ekki flokka, aðskilja löggjöf og framkvæmd og margt fleira sniðugt. 

Og þegar markmiðum hreyfingarinnar hefur verið náð mun hún lögð niður.

Ef við kjósum áfram flokkana þá finnum við engan mun. Þá verður þetta enn sama hagsmunapotsúpan. Sama ruglið.

Ef við kjósum Borgarahreyfinguna þá erum við að kjósa nýtt kerfi sem hentar betur þessari litlu, agnarsmáu þjóð sem er líkari ættbálki en nokkru öðru. Þá kjósum við burtu það sem nýtist okkur ekki lengur - hrossakaup og frímúrarasamninga.

Kjósum nýtt og betra lýðræði fyrir börnin okkar. Heilbrigðari starfshætti. Heilbrigðari þjóðarsál á 21 öld. Borgarahreyfinguna.