laugardagur, mars 28, 2009

Gelgjur

Eruð þið, kæru lesendur, til í að hætta þessum barnalega Liverpool vs. Man U fíflagangi í sambandi við stjórnmálin og flokkana á kommentakerfinu mínu?

Þetta er á svo lágu plani að mig langar helst að heilsa upp á postulínið. Hér eru að koma svo ignorant komment að manni er skapi næst að halda að það séu krúnurakaðir ofsatrúar nýnasistar á lyklaborðinu en ekki menntaðir íslendingar úr misfínum úthverfum.

Hvað er málið með þessi trúarbrögð? Hvernig í ósköpunum getur einhver einn fokking flokkur verið handhafi sannleikans og aðrir flokkar gersamlega úti að...?

Eigum við kannski að hanna búninga á fylgismenn fjórflokkanna? Bláa fyrir Sjálfstæðismenn, Rauða á Samfylkinguna, Græna á hippana og mintu græna á Framsókn. Axlabönd og stígvél? Sixpensara? Stuttbuxur? Usss.... og svo fight club á Klambratúni á Laugardögum?

Hrynur heimurinn ef maður hangir ekki pikkfastur innan ofsatrúar á einhvern flokk, hvort sem hann er hægri, vinstri, undan, ofan eða á ská? Erum við að spila fótbolta eða hugsa um velferð þjóðar?

Er ekki í lagi?

Væri Gunnar í Krossinum kannski góður forsprakki stjórnmálaafls? Ég er ekki frá því.