þriðjudagur, mars 10, 2009

Fiskbúðin við Vegamót

Jæja.

Þá er þessi gleiðgosalega fiskbúð sem potaði sér inn á Vegamót farinn og gamla skiltið komið aftur. Fiskbúðin Vegamót.

Tanaði fisksalinn er samt farinn eitthvað upp í Breiðholt og strákurinn sem var í Fiskisögu stendur enn á bak við borðið með svarta fagmannshattinn.
Ég vona að konan sem kom með ástarpungana sína fái að selja þá þarna aftur. Ástarpungar eru svo góðir og vandfundnir. Fagmannshatturinn sagði allavega að nú væri aftur í boði að kaupa hálft rúgbrauð og kartöflur eftir vigt.

Þegar Fiskisaga var þarna var allt þetta góða og fína tekið af listanum. Hún fór frekar mikið í taugarnar á mér þessi Fiskisaga. Fyrst var strákur frá Suðureyri með fiskbúð í þessu húsi en svo kom "keðjan" á svæðið og ætlaði að gera eitthvað svaka hipp og kúl en var bara með verri mat, okur og gleiðgosalæti. Mér leiðast eitthvað svo þessar keðjur allar.

Skilst að sá sem keypti reksturinn núna sé að versla t.d. kartöflurnar beint af bóndanum. Það gleður mig mjög. Allt sem kemur beint af bóndanum er....

Ha? já-neinei...

Maður á að segja beint AF kúnni og beint FRÁ bóndanum.

Ég vil ekki sjá neitt sem kemur "beint af bóndanum".

Oj