föstudagur, október 24, 2008

Persónulegir hagsmunir

Þegar öllu er á botninn hvolft endar fólk vanalega á að hugsa fyrst og fremst um að vernda eigin hagsmuni.

Hagsmunir þessir felast yfirleitt fyrst og fremst í afkomuöryggi en oft snúast þeir líka um stöðu og vald.

Á eyjunni okkar hafa lengi verið misstórar valdaklíkur í gangi þar sem meðlimirnir hjálpast að við að vernda hagsmuni hvers annars. Þetta er það sem ég kalla "frímúrara" (og þá á ég ekkert endilega við regluna eða frímúrarana sjálfa sem persónur, enda eins misjafnir og þeir hafa verið margir með sína krossa og kórintubréf).

Meðlimir valdaklíka á Íslandi eru af báðum kynjum nú til dags en þá er helst að finna í hærri stöðum í samfélaginu. Mismikið vald auðvitað. Stundum yfirmenn á vinnustöðum, stundum stjórnmálafólk, stundum eitthvað sem endar á -stjóri.
Eitt sinn voru kaupfélags-stjórar valdamiklir menn á Íslandi, enda sáu þeir um góssið og það var ekki mikið til af því. Fyrir skemmstu voru bankastjórar valdamiklir enda um talsvert mikið góss að ræða þar. Ritstjórar hafa lengi verið valdamiklir en nú er komin upp sú staða hérlendis að fólk er farið að draga fréttaflutning fjölmiðlanna sem þeir starfa við í efa, enda virðast þeir alltaf einhverja hagsmuni og einhverja sem þeir kalla vini.

Ég hef stundum lent í smá vandræðum þegar ég set mig upp á móti því að fólk sé að gæta sinna persónulegu hagsmuna á kostnað fjöldans. Stundum hef ég líka lent í smá veseni þegar ég skammast yfir því að fólk láti vaða yfir sig eða kúga sig af ótta við að verða fyrir hagsmunaskerðingu -ótta við að fjárhagslegu öryggi þess sé ógnað. En ég kýs fremur vandræði en ranglæti. Og kýs fremur að segja að keisarinn sé nakinn en að taka undir með hinum og trúa því að hann sé fullklæddur.
Einhvernveginn vegur það þyngra á mínum andlegu vogarskálum að halda mig við það sem ég tel satt en að þegja af ótta við að tapa einhverjum krónum eða enn verra -vera kúguð á einn eða annann hátt. Að verða fyrir frelsisskerðingu og kúgun er það versta sem ég get hugsað mér.

Það eru nokkur mörg dæmin sem ég hef af íslenskum vinnustöðum þar sem þessi vandræðagangur með hagsmuni hefur orðið til þess að fólki hefur liðið illa og farið gegn eigin betri vitund, en látið sig hafa það.

Eitt er af stóru fyrirtæki hér í bæ þar sem starfsmenn voru ráðnir í venjulega vinnu, fimm virka daga vikunnar. Eftir að hafa samið um laun og unnið í svona rúma viku var það kallað inn á kontór og tilkynnt að það þyrfti líka að vinna um helgar, tvo helgardaga í mánuði, en fengi ekkert greitt umfram það sem búið var að semja um áður.
Af ótta við að missa vinnuna gengu allir að þessum kaupum en urðu um leið fyrir skertum lífsgæðum. Til dæmis einstæðir foreldrar sem voru með börnum sínum um vinnuhelgar, þurftu að verða sér úti um barnapíu og borga henni... eða verða af tímanum með barninu. En það var aldrei gert neitt í þessu. Það gekk enginn alla leið. Af ótta við hagsmunaskerðingu. Þetta meikar ekkert sens.

Annað dæmi eru launaleyndirnar svokölluðu. Ég hef aldrei skilið þær. Skil ekki þetta endalausa leynimakk með peninga. Einhverntíma skildi ég launaseðil eftir á skrifborðinu mínu og kona sem sat á næsta borði kíkti í umslagið. Eftir það gekk hún rakleiðis á fund yfirmanns og bað um hækkun. Ég var húðskömmuð fyrir þetta af yfirmanninum en innst inni var ég sátt konunnar vegna. Hún hafði alveg unnið sér inn fyrir hærri launum. Var í raun á allt of lágum launum.

...og ég á fleiri dæmisögur sem ég ætla þó ekki að rekja hér. Þau eru lítil í samanburði við þau hagsmunatengsl sem nú hrista landið okkar.

Eitt slíkt heyrði ég síðdegis í dag. Mér var sagt að nokkrir alþingismenn hefðu hringt í sína nánustu rétt fyrir áhlaupið á Glitni og sagt þeim að taka út peninga af sjóðsbréfum. Þar sem við eigum Íslendingabókina okkar held ég að það væri vel til fundið að kíkja á reikninga eiginmanna, kvenna, foreldra, barna og ættingja þeirra sem eru á þingi og renna yfir stöðuna. Hvað voru margir sem tæmdu sjóðina rétt fyrir áhlaupið og hverjum tengjast þeir? Hversvegna sögðu þeir ekki ÖLLUM frá þessu? Af hverju bara nokkrum?

Dæmin um óheilbrigð hagsmunatengsl í ættbálknum okkar eru svo mörg að það ætti að teikna upp kort af þeim. Við gætum byrjað á Davíð Oddsyni og teiknað svo hausa í kringum hann. Hvað ætli Jón Steinar hafi t.d. fengið marga sýknaða eða dæmda seka út frá eigin hagsmunum? Hvernig var þetta með olíusamráðin hér um árið? Hversvegna er Árni Johnsen enn á þingi? Hvað ætli margir þingmenn hafi tekið stórar ákvarðanir út frá eigin hagsmunum? Kortið gæti orðið ansi stórt þegar fram líða stundir og fleira kemur í ljós.

Mér þætti mjög gaman ef einhver gæti teiknað upp þetta kort. Við gætum kannski öll hjálpast að við að bæta nöfnum á listann?... Öll... nema þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta sem gætu skerst af slíku uppátæki.

Ég skora á einhvern forritara að rigga þessu upp. Sé þetta fyrir mér sirka svona nema bara með fólki en ekki tónlist ;)