Nýtt fyrirkomulag í kosningum
Eins og ég hef skrifað hérna áður þá leiðist mér flokkapólitík mikið. Ég sé heldur ekki að hún gangi neitt sérstaklega vel upp. Að fólk komist á fyrsta sæti á lista síns flokks, í sínu kjördæmi og sé svo skipað í ráðherrastóla. Mér þykir þetta óttalegt endemis rugl og eins og sjá má... oftar en ekki ávísun á vandræði.
Hvað er t.d. dýralæknir að gera sem fjármálaráðherra? Og hvað er heimspekingur að gera sem viðskiptaráðherra?
Ég held það væri nær að leggja þessa flokkavitleysu niður og byrja að reka þjóðarbúið sem fyrirtæki. Við erum ekki það stór þjóð.
Hvernig væri það til dæmis að það væri auglýst eftir stöðu fjármálaráðherra? Fólk með mikla reynslu af fjármálum gæti boðið sig fram. Til dæmis einstaklingar sem hafa unnið lengi og getið sér gott orð sem endurskoðendur, hagfræðingar og þh. Fólk með mikla þekkingu og reynslu.
Segjum að 30 myndu sækja um starfið. Það væri settur upp prófíll af hverjum og einum á netinu. Við gætum lesið okkur til um þetta fólk og lesið meðmæli. Svo væri hægt að efna til beinna kosninga á netinu. Búa til eitthvað kosningakerfi sem virkar svipað og heimabankinn. Þau sem ekki komast á netið gætu kosið á annan hátt. Þetta á ekki að vera flókið.
Í stöðu heilbrigðisráðherra væri hægt að ráða manneskju sem hefur reynslu og þekkingu af heilbrigðiskerfinu. Menntamálaráðherra væri manneskja sem hefur reynslu og þekkingu af þeim málum og svo framvegis.
Ég held að þetta fyrirtæki myndi verða mun betur rekið ef svona væri staðið að málum.
Þessi kakófónía sem hefur verið í gangi hérna undanfarið er góð sönnun þess að þetta stjórmálafyrirkomulag sem hérna viðhefst er ekki að skila tilætluðum árangri. Fyrirtækið er farið á hausinn.
|