Krikaloð, klám og nárahár skipta litlu máli
Margrét hugrún gústavsdóttir er með ofnæmi fyrir forpokuðum femínisma
Framganga þeirra, áherslur og málflutningur hafa leitt til þess að ég og fleiri mega varla heyra minnst á orðið feministi. Sumir fara jafnvel í vörn og segjast alfarið á móti fyrirbærinu, krossa við að konur eigi að þvo og karlar að skipta um perur.
Á sínum tíma tóku nasistar aldagamalt tákn um gang sólarinnar og gerðu að sínu. Þetta var fínasta tákn, en eftir notkun nasista mega fæstir sjá svastiku án þess að myndir af fjöldamorðum og viðbjóði skjóti upp kollinum í vitundinni. Svipað hefur gerst með orðið "feministi". Fyrir nokkrum árum voru margir sem þekktu vart muninn á orðinu feminin og feministi, en í dag hefur hið síðara nánast orðið að skammaryrði hjá mörgum... líka þeim sem aðhyllast jafnan rétt kynjanna.
Eftir stofnun Feministafélagsins dregur orðið "feministi" þannig fram hugmynd um öskureiðan kvenmann sem þolir ekkert sem viðkemur kynfrelsi eða almennu fjöri. Krikaloð og nárahár eru meðal þess sem hún ergir sig yfir og hennar hugmynd um jafnrétta konu er Rannveig Rist eða önnur sem hefur unnið ámóta sigra í karlheimum.
Konur og hommar eiga það sameiginlegt að þykja ekki neitt sérlega fínar skepnur og eiga því sína baráttudaga í dagatalinu. Niðrandi lýsingarorð eins og hommalegur, stelpulegur, hleypur eins og stelpa, keyrir eins og kerling o.s.frv. sanna þetta. Að vera strákaleg þykir þó ekki niðrandi fyrir konu og að hlaupa eins og strákur er ekki "slæmt". Bara þetta gefur okkur góða ástæðu til endurmats á eigin viðhorfum.
Af hverju er gott fyrir konu að vera eins og karl, en vont fyrir karl að vera eins og kona? Þessu vil ég gjarna breyta, með jöfnum blóðþrýstingi og án þess að einblína á krikaloð og klám í leiðinni.
Og hvaða máli skiptir hver þvær, svo lengi sem bæði leggja sitt af mörkum?
|