sunnudagur, maí 06, 2007

Megrunarlausi dagurinn

Ég sver það. Núna er megrunarlausi dagurinn. Af hverju? Af hverju eru 364 dagar ársins megrunardagar, en þessi sunnudagur megrunarlausi dagurinn? Þetta er eins og að hafa einn dag á ári, reykdaginn. Dagurinn sem við sem erum hætt að reykja fáum okkur eins og pakka af Winston.

Mikið óskaplega er ég að klepra á þessum endalausa komplexakór yfir holdafari. Lets feis it. Það er ekki gott að veltast um í spiki og hafa lina vöðva. Það er ekki einu sinni gott að hafa bara lina vöðva og það er ekki gott að vera of mjó. Í fylgiriti Fréttablaðsins í dag eru nú pistlar um hvað það sé nú hræðilegt fyrir konur að vera alltaf í megrun. Það er bara alls ekkert hræðilegt. Það er nauðsynlegt. Og líka fyrir karla. Við erum öll að blása út og það er staðreynd. Þessvegna mætti keyra megrunaráróður alla daga mín vegna.

Sko. Nei annars... SKO!

Þegar ég var lítil þá var borðað fimm sinnum á dag. Hafragrautur á morgnanna, hádegismatur í hádeginu, brauð og mjólk í kaffinu, kvöldmatur og svo smá kvöldkaffi...t.d. mjólkurkex og djúsglas eða tebolli. Fimm máltíðir. Þetta var lífstíll almennings.

Við gengum út um allt. Amma gekk út í búð, ég gekk í skólann... um kílómeter á dag hvora leið. Svo var ég á flakki þess á milli. Krakkar á flakki og flest fullorðið fólk í vinnum sem kröfðust þess að það stóð í lappirnar eða hreyfði sig. Margar konur unnu heima við allskonar heimilisstörf og karlar úti. Allir á iði og að borða jafnt og þétt yfir daginn. Einn feitur í bekknum og það var "feiti strákurinn".

Í dag er þetta alls ekki svona. Í dag þurfa flestir að hafa sérstaklega fyrir því að láta líkamann hreyfast. Við keyrum allt og leggjum okkur fram um að finna bílastæði við dyrnar. Mat borðum við stopult og alls ekki eftir klukkunni heldur oft eftir því hvort við erum "svöng". Framboðið á skyndifæði hefur hundraðfaldast og um leið er til allskonar dótarí sem var ekki til áður. Að borða nammi og drekka kók er ekki lengur spari eins og það var þegar ég var krakki, heldur er þetta eitthvað sem fólk leyfir sér eftir þörfum. Nú... og svo má núna drekka bjór.

Ef meðal manneskja eldri en 25 ára gerir ekki eitthvað til að halda líkamanum sínum í formi þá mun hún missa vöðvamassann og að öllum líkindum fitna. Og þannig er það nú bara. Þá er ég ekki að tala um alla þá sem borða sér til dægrastyttingar eða huggunar, heldur bara venjulegt fólk sem ekur upp að dyrum og vinnur við tölvur.

Að halda styrkleika í vöðvunum og vera laus við auka spik er ekki bara spurning um að vera meira aðlaðandi, heldur líka heilsuna. Og það að vilja halda heilsu ætti að vera mátulega politically correct fyrir þessa kjána sem virðast svo uppteknir af því að vera á móti hégóma. Hégóma á borð við þann að vilja vera með fallegan og heilbrigðan líkama.

Talandi um þetta. Það er nú meira hvað fólk getur svo á móti velt sér upp úr megrunargeðveiki á borð við anorexíu sem er jú ekkert annað en megrunargeðveiki. Um megrunargeðsjúka "má" tala illa... Það er meira PC en að tala illa um feita: "Sjáðu.. hún er nú bara með anorexíu þessi maður".... líkt og sú umtalaða sé verri manneskja fyrir það að vera haldin svo mikilli megrunargeðveiki. Að segja um feita manneskju "Þessi er nú augljóslega eitthvað húðlatt átvagl með lélega sjálfsvirðingu"... það gerir enginn.
Anorexiu sjúklingar eru töluvert færri heldur en fólkið sem er á biðlistum eftir magaminnkunaraðgerð. Þeir eru líka miklu, miklu færri heldur en allt fólkið sem er með 15-20 "aukakíló" á líkamanum. Þeir eru miklu færri en krakkagrey á ritalíni og miklu færri en fólk á þunglyndislyfjum. Samt er eins og það sé endalaust hægt að benda á þá til að "réttlæta" ofeldi og snakkát yfir Pepsi Max og ædolinu á hverjum einasta föstudegi. Dagana þar á milli, kókþamb daglega, hamborgarar, pylsur, prins póló, pasta, enginn morgunmatur o.s.frv... Megrunargeðsjúkir verða réttlætingartól þeirra sem borða sér til dægrastyttingar, nenna ekki að hreyfa sig og hafa ekki áhuga á að sinna heilsunni.

Auðvitað er hægt að fara í öfga í allar áttir. Heimurinn er í raun hálfpartinn að fyllast af litlum öfgahópum sem öfgast og rembast í sinni sannfæringu. Heilsuöfgar eru líka til og það er nú fátt meira boring en vinkonur sem hafa "ofnæmi" fyrir hveiti, sykri, eplum, maís, mjólkurvörum og olíu. Fólk þarf bara að læra að beita sig aga. Borða í samræmi við orkuna sem er eytt yfir daginn. Asnast til að viðurkenna að það er meira gaman að halda heilsu og hafa fallegan skrokk en að háma í sig mat og gotterí þar til maður verður feitur, andstuttur, asnalegur í laginu og alltaf að ergja sig á því að passa ekki í gömlu gallabuxurnar.

Leti, ofát og græðgi eru þrjár dauðasyndir af sjö en hégómi er ein... og af þessum þremur þá held ég að hégóminn sé skömminni skárri því allt þetta veraldlega er í raun hégómi. Við komumst ekki hjá honum og í framhaldi af þessu lýsi ég opinberu frati á "megrunarlausa daginn".

Svo læt ég hér fylgja myndir af fyrirmynd minni í lífinu henni Leni Riefenstahl. Hún var alltaf áhugasöm um heilsu og lýsti algeru frati í það að aldurinn ætti að stoppa mann frá því að gera hvað sem er.

Á þessari mynd er hún rúmlega sextug:



Og hér er hún rúmlega hundrað ára: