Til forpokuðu forkonunnar
Hin æsta forkona femínistafjélagzins var að bölva Hollensku klámskrímslunum á blogginu sínu. Þar smellti einhver inn hlekk á færsluna sem ég skrifaði um baráttuaðferðir hennar og skammaðist út í mig um leið. Ég skrifaði þetta í athugasemdarununa. Kannski að ég geri mig skiljanlegri svona:
Halló hressa fólk. Gaman að þessu. Best að bæta við athugasemd við þessa fjörugu klámumræðu. :)
Sjálfri finnst mér það niðurlægjandi gagnvart fullorðnum konum að ætla að þær hafi ekki sjálfsstæðan vilja til að ákveða hvort þær vilji taka þátt í klámrugli. Vissulega tíðkast mikil spilling í þessum bransa. Karlarnir og konurnar eru oft í dópi (eins og í rokk og módelbransanum) og áttu erfiða æsku (eins og í rokk og módelbransanum), en ef fólkið er orðið eldra en 18 þá hlýtur það að vera þeirra mál hvað það gerir við sitt líf. Hvort það vill skemma það með því að vera berrassað á mynd eða ekki.
Að fókusera svona mikið á kynlífsmál í feminisma umræðum finnst mér hættulegt fyrir málsstaðinn. Kynlífssmekkur er ótrúlega misjafn og enginn ætti að ákveða fyrir annan hvað er í lagi og hvað ekki. Það eina sem við getum hinsvegar öll kvittað undir er að allar athafnir þar sem valdi er misbeitt eru ósamþykkjanlegar. Í þessu samhengi finnst mér t.d. orðið „barnaklám“ vera tómt rugl því í hugum flestra tengist þetta orð allsberu fullorðnu fólki að sprella fyrir framan myndavélar.
Þegar fullorðnir sýna börnum kynferðislega tilburði þá er alltaf, undantekningarlaust um ofbeldi að ræða og því ætti aðeins að nota orðið "myndir af kynferðisofbeldi" í þessu samhengi en láta orðið "klám" tilheyra fullorðnum og því sem fullorðnir gera.
Það er nóg af ofbeldi gagnvart kvenfólki í heiminu. Það er líka framið ofbeldi gagnvart gömlu fólki, börnum og ýmsum minnihlutahópum. Þetta er mein sem fylgir mannkyninu og við erum alltaf að reyna að gera eitthvað til að laga þetta.
Feminismi á hinsvegar að ganga út á að karlar og konur sýni hvoru öðru gagnkvæma virðingu. Karlfyrirlitning er ekki orð sem við eigum í orðaforðanum en kvenfyrirlitning er hinsvegar þekkt. Daginn sem við hættum að segja:
-Kerlingarleg
-Ráðherra (akkuriggi frú?)
-Flugmaður (akkuriggi kona eða „fræðingur“?)
-Hleypur eins og stelpa
-Keyrir eins og kelling
osfrv... og notum þau í niðurlægjandi merkingu... þá erum við kominn mjög mjög langt.
Og daginn sem karlar hætta að gera grín að áhugamálum kvenna, umönnunarstörf verða metin að verðleikum og konur fá jafn mikla virðingu hvort sem þær eru með krikaloð og í mussu eða minipilsi og með bleikt gloss... Já þá verður gaman! Og kannski byrja konur allt í einu að skilja af hverju flestir karlar loka ekki klósettinu og karlar taka kannski skyndilega upp á að skilja af hverju konur vilja að því sé lokað... og byrja bara að loka því... án þess að finnast þær asnalegar. Já... jibbí... þá verður gaman.
Í pistlinum mínum var ég að gagnrýna þessi læti og þessa endalausu reiði. Að skammast yfir klámi og ámóta vitleysu og einblína svona á kynlífstengda hluti. Ghandi var einn sá besti í því að vinna gegn óréttlæti og ekki var hann neitt sérlega æstur. Nei, hann var sérlega rólegur. Það virkar betur. Að æsa sig endalaust yfir svona stóru máli sem hefur verið að þróast í gegnum fleiri, fleiri, fleiri kynslóðir og er enn að þróast... er eins og að berjast við vindmillur. Svo heyrist líka verr hvað verið er að segja þegar það er æpt. Fólk fer í vörn og sér fyrir sér hina ógurlegu Vagina dentata... Kali... eða kannski bara Grýlu?
|