Lóan er komin
...og það eru blóm í garðinu mínum! Túlípanar held ég...eða eitthvað þannig.
Af þessu tilefni ætla ég því í sunnudagsbíltúr með vinkonu minni. Við ætlum að syngja ættjarðarlög á meðan af því útvarpið er bilað. Munum byrja á heimabæ hennar, Hveragerði, og fara svo þaðan suður með sjónum til baka.
Hvað varðar myndirnar af köppunum DO og LJ ætla ég að láta þetta fylgja með. Saga frá fyrstu hendi. Maðurinn sem tók myndirnar:
Þegar Seðlabankastjórinn og fyrrverandi forsætisráðherrann hitti útigangsmanninn í haustkuldanum í miðbænum.
Ég sá Dabba kóng hitta Lalla Jóns á horni laugavegs og Ingólfsstrætis 24. nóvember í haust. Lalli vatt sér að Dabba og fór að ræða málin við hann. Ég hafði fylgst með þeim spjalla í drykklanga stund þegar ég hljóp út og fékk leyfi þeirra til að taka af þeim mynd, sem þeim fannst sjálfsagt. Að lokinni myndatöku spurði ég Dabba hvort hann ætlaði að fara að segja af sér og hleypa hæfari mönnum að, en hann spurði hvaða menn það ættu að vera. Bönkunum væri stjórnað af slíkum mönnum og við sæjum hvar þeir væru staddir. Ég sagðist ekki vera að tala um viðskiptafræðinga heldur hagfræðinga og þjóðhagfræðinga. Dabbi sagði að Seðlabanki Bandaríkjanna væri með um 200 slíka í vinnu, og hvar væru Bandaríkjamenn staddir. Ég sagði að við gætum ekki líkt Íslandi við Bandaríkin, og því síður önnur lönd, við værum að sökkva eins og steinn samanborið við aðra. Dabbi brosti og sagði að það væri nú einmitt kosturinn, við sökkvum hratt en verðum jafn fljót að komast aftur upp á yfirborðið. Stóísk ró Dabba, vinalegt viðmótið og huggunarorðin urðu til þess að ég hef aðeins bjartari sýn á framtíð okkar. Ef Dabbi getur verið svona jákvæður og rólegur, hvað er ég þá að æsa mig. Ég gekk brosandi aftur inn á kaffihúsið og drakk kaffið mitt.5 mínútum síðar kom Lalli Jóns arkandi inn á kaffihúsið með 5000 króna seðil í höndinni og sagði að ekki væri að undra að við værum að fara í hundana, Seðlabankastjóri Íslands þekkti ekki íslenska seðla í sundur. Hann hafði beðið Dabba um 500 kall en fengið 5000 kall. Lalla fanst þetta mjög fyndið.Ég hef hitt nokkra íslenska þingmenn í gegn um tíðina, m.a. Árna Johnsen og Halldór Ásgrímsson þegar hann var forsætisráðherra og hefur álit mitt á þeim tveimur horfið eftir þau kynni, ekki að það hafi verið mikið fyrir. Þeir brugðust við eins og innikróaðir litlir frekir krakkar. En þegar ég laumaði þessari spurningu á Dabba, þá heilsaði hann mér með handabandi og lagði hönd um öxlina á mér og ræddi málin rólega og yfirvegað. Eftir að hafa rætt málin við mig hélt hann áfram sínu samtali við Lalla og endaði á að gefa honum 5000 krónur. Ég held að fáir í hans stöðu hefðu gert það sama, og alls ekki mennirnir sem voru með allt að 64 milljónir á mánuði þegar allt lék í lyndi og eru nú búnir að setja landa sína út á ísinn.Þessi saga er til marks um húmorinn í Lalla og um þann mann sem Dabbi hefur að geyma þrátt fyrir að vera einn umdeildasti maður á Íslandi þegar þetta gerist. Ég tek fram að engir fjölmiðlar höfðu aðgang að þessum fundi, heldur voru þetta bara einlæg samskipti þriggja manna, hver úr sinni áttinni.
Kveðja,Siggi Palli
|