laugardagur, janúar 31, 2009

Valdagræðgi

Ég held að það gerist af sjálfu sér að fólk fyllist svokallaðri valdagræðgi þegar það byrjar að starfa með stjórnmálaflokki líkt og fyrirsætur fá oft anorexíu um leið og þær byrja að sitja fyrir.

Þessi valdagræðgi verður oft til þess að hugsjónir eru látnar flakka. Vinnan gengur jafnvel að mestu út á að falla í kramið hjá höfðingjum flokksins og "efla tengslanetið".

Undanfarið hef ég skoðað myndir af honum Steingrími Joð (sem mér hefur oft þótt hinn ágætasti stjórnmálamaður). Áður en ríkisstjórnin féll minnti hann mig helst á ergilegan hund sem bíður með slefið í munnvikunum eftir því að fá kexið sitt. Núna er hann svo happý á svipinn að hann minnir helst á prózak auglýsingu. Eitthvað svona fyrir og eftir dæmi.

Svo er ég alltaf að rifja upp atriði í gömlu áramótaskaupi sem kallaðist "Meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka"...

Líður eins og því lengur sem beðið er eftir Godot (nýju ríkisstjórninni) því meiri verði skaðinn. Svona eins og í teiknimyndasögu þar sem dyraverðirnir eru fullir að spila rommý meðan ræningjarnir tæma kastalann.

Hnúturinn þéttist og flækjan æ óviðráðanlegri.

Hvalveiðistöntið var eitt sýnilegt dæmi um þetta.

Hvað ætli margir séu að koma "þýfinu undan" meðan vinstrienglarnir rífast um hver megi ráða? FME hálfpartinn stjórnlaust apparat og seðlabankastarfsmenn undir gálganum með pappakassa fullan af pennum og myndarömmum.

Meðan húsið brennur þráttar parið um hvort eigi að halda bítlaplötusafninu og hver taki sófann.

Sniðugt?

Nei.

Því fyrr sem þú og ég byrjum að gera það sem við getum gert til að lina kreppuþjáningarnar -því betra.

Nú þurfum við að fara í snjóflóða, eldgosa og jarðskjálfta gírinn. Standa saman og byggja pleisið upp með ósérhlífni og eljusemi. Hafa bjartsýnina að leiðarljósi...

Ef við gerum það ekki þá er eins hægt að panta sér prósakkið núna eða kaupa nokkra kassa af Vodka ásamt Finnskum þunglyndistangó-plötum og hætta að brosa.

Langar mann það? Eh. Nei.