föstudagur, janúar 30, 2009

Jóhanna, ein lítil lausn?

Ég hef pælt aðeins í 10% atvinnuleysi á Íslandi. Það þýðir að 18.000 menn og konur verða án atvinnu. Aðallega karlmenn og þar af dágóður slatti af hátekjumönnum góðærisins (bankamenn og fleiri).

Hlutfallið af sköttum í ríkissjóð á eftir að minnka svakalega við þetta. Mikið hlýtur þá að verða flókið og erfitt að halda samfélagsvélinni gangandi.

Ég á tvær vinkonur sem vinna í heilbrigðisgeiranum. Þar ríkir yfirvinnu og ráðningarbann. Önnur þeirra starfar á barnadeild Landsspítalans. Hún sagði mér að ástandið fari sífellt versnandi og að tvisvar hafi þetta nálgast hættumarkið. Fimm alvarlega veik börn í einu og varla nægt starfsfólk til að sinna þeim.

Mér datt í hug ein lausn. (Jóhanna mín... nótaðu þetta hjá þér):

Það eru margar konur sem hafa unnið við umönnunar og hjúkrunarstörf en hafa þurft að hætta þegar þær fóru á eftirlaun. Það er mjög persónubundið hvort fólk fílar sig á eftirlaunum eða ekki. Það eru alls ekki allir sem hafa gaman af því að láta dagana líða án þess að verða að gagni, sérstaklega þegar fólk hefur enn gott starfsþrek og langar meira að vera í félagsskap en að leggja kapal daginn út og inn.

Gæti ekki verið hægt að virkja þessar konur (og kannski einhverja karla) til að koma í kannski 2-3 tíma á dag og létta undir með liðinu? Ég er viss um að margar væru til í að gera þetta nánast í sjálfboðastarfi (ef ekki bara alveg).

Það er gott að vera einhvers virði í samfélaginu og þá sérstaklega ef um er að ræða neyðarástand sem þetta sem er ekkert annað en afleiðing af kreppunni að koma niður á þeim sem síst ættu að verða fyrir því.

Þetta gæti orðið svokölluð win-win staða.