Upp úr mýrinni
Ég verð að viðurkenna að mér hefur fundist ástandið á Íslandi mjög sorglegt.
Það er hræðileg ringulreið sem hefur verið ríkjandi hér síðan bankarnir voru teknir yfir. Eitt vandamálið hefur kallað á annað og sem aldrei fyrr hefur það blasað við að tengslin á milli peninga og embættismanna eru svo flókin að það er nánast ógerlegt að átta sig á því hvernig hagsmunir tengjast og hvernig ekki. Hverjum getur maður treyst?
Double trouble.
Það þurfti hrun bankakerfisins til að fólk hérna áttaði sig á því að það er, og hefur lengi verið, gríðarleg spilling á eyjunni og að það er ekki hægt að búa við svoleiðis til lengdar.
Um leið og við þurftum gríðarlega á hjálp að halda áttuðum við okkur á því að þau sem áttu að hjálpa voru hugsanlega þau sömu og urðu völd að skaðanum. Double trouble eins og félagsfræðingarnir segja -eða triple eða þessvegna quadruple í okkar tilfelli.
Það er uppi orðrómur í stjórnkerfinu um að Davíð hafi eitthvað á Geir sem gerði það að verkum að Geir lét hann sitja áfram í seðlabankastólnum þrátt fyrir að 90% teldu réttast að hann færi. Ef þetta er rétt þá er það, að Geir hafi látið slíkt stjórna sér, í sjálfu sér ferlegt.
Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir stóran hluta af ringulreiðinni hefði Davíð, ásamt ákveðnum ráðherrum og embættismönnum, verið vikið úr starfi fyrstu dagana eftir hrun. Ef hingað hefðu strax verið fengnir erlendir "kreppu og spillingarsérfræðingar" til að greiða úr málunum. En það var ekki gert og ástandið gerði ekkert annað en að versna og flækjast.
Nú hefur verið ákveðið að kjósa í Maí.
Ég vona að fram að því sé hægt að sigla lygnan sjó. Þó ekki sé nema til þess að tilvonandi frambjóðendum gefist tíma til að kynna sig og sín markmið með góðum rökum. Svo við förum ekki að gera neitt í óðagoti. Það hefur verið nóg um það og að taka ákvarðanir í uppnámi hefur engum reynst vel. Það þarf að telja upp að tíu og ákveða sig svo.
Ég tók eftir því í hádegisviðtalinu við Steingrím J. að honum er mikið í mun að það verði kosið sem fyrst. Kannski er það vegna þess að VG er skásti kosturinn í stöðunni eins og hún er núna? Ef aðrir stíga fram í sviðsljósið gæti okkur boðist eitthvað betra og hann vill ekki missa meðbyrinn sem er í seglunum í dag? Gæti verið.
Sjálf vil ég endilega bíða og sjá hvort einhver komi með svo skynsamlegt plott að það sannfæri mig í gegnum merg og bein. Að afþakka lánið frá AG sem hann Þorvaldur minn Gylfason mælir svo sterklega með er ekki beint góð hugmynd held ég.
Svo er það þetta með mótmælendurna. Ég hef talað við nokkra vini mína sem hafa viðurkennt að hafa orðið húkkt á því að mótmæla. Fengið einhverskonar bongó-trommu-tribal-fix við það að öskra sig hás og hoppa.Geta ekki beðið eftir því að komast aftur niður á Austurvöll til að mótmæla meira. Finna lífskraftinn streyma um æðarnar í stað þess að hanga á Facebook -or something.
Ein vinkona mín mótmælti svo hátt að röddin í henni varð eins og í chihuahua hundi sem einhver var að kyrkja. Hláturskastið sem ég fékk þegar ég heyrði í henni í síma var í sjálfu sér ávinningur af mótmælunum fyrir mig. Alltaf gaman að hlægja þar til maður tárast.
Vonandi mætir fólkið á morgun til að fá fixið sitt en í þetta sinn fagna því að það náðist árangur (ef svo mætti kalla. Geir er jú að hætta af því hann er veikur). Ég ætla að reyna að kíkja á þetta en á sama tíma finnst mér það einhvernveginn svolítið sorglegt af því þetta viðkvæma, stjórnlausa, sérkennilega ástand sem blasir við þjóðinni er svo óskaplega sad.
Ég vona innilega að sú samstaða sem náðist í mótmælunum komi til með að vera sú sama þegar við förum að byggja landið okkar upp að nýju. Ef 14.000 manns geta skráð sig í Facebook grúppu gegn mótmælendum sem beita ofbeldi þá vona ég að þau sömu geti skráð sig í hóp sem stefnir að því að ná okkur sem hraðast upp úr mýrinni á nýjum og heilbrigðum forsendum. Að við getum skapað okkur atvinnu af einhverju tagi og börnum okkar góða framtíð og að við gerum það eins mikið og víð getum -sjálf- í stað þess að gefa fólkinu á þingi nánast afskiptalaust umboð til þeirra ráðstafana.
Sameinaðir stöndum vér -manstu?
|