laugardagur, janúar 24, 2009

AA og íslensk stjórnmál

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í stjórnmálum á Íslandi hefur mér undanfarið oft verið hugsað til AA samtakanna . 

AA samtökin voru stofnuð árið 1935 í Bandaríkjunum en helsta markmið þeirra var og er að hjálpa fólki sem t.d. verður "slæmt með víni" að hætta að drekka það.

Til að ná þessu markmiði miðla óbreyttir borgarar (og stundum breyttir) af reynslu sinni hver til annars. Í þeim tilgangi hittist fólk á misstórum fundum (sem kallast deildir) og þar þarf að borga fyrir leigu og kaffi meðan isminn er ræddur í klukkutíma eða svo.

Til að eiga fyrir kaffi og leigu slær fólkið í púkk og lætur svo peningana sem eftir verða renna til landsþjónustunefndar -en svo nefnist apparatið sem heldur utan um allar deildir samtakanna á landsvísu, prentar bækur og bæklinga og svarar síma.

Þar sem AA eru samtök sem innihalda manneskjur varð stofnendum þeirra (læknir og verðbréfasali) fljótlega ljóst að mannlegir brestir myndu láta á sér kræla í stjórnkerfi batterísins. Bresti á borð við t.d. valdagræðgi og það að vilja eigna sér heiður.

Því gripu þeir, í samráði við aðra félaga, til þess ráðs að sjóða saman reglur til að fara eftir. Reglur sem miðast við að það er enginn einn stjórnandi yfir apparatinu. Einskonar lýðræðisreglur if you like, sem beina samviksku manna í réttan farveg.

Þessar reglur svínvirkuðu því enn í dag eru milljónir manna og kvenna um heim allann í þessum (nánast anarkísku) samtökum sem lifa virkilega góðu lífi. Og það er eiginlega mjög merkilegt því alkar setja jú orðið "funk" í "disfunktional". Samtök sem innihalda milljónir af disfönksjónal einstaklingum og hafa samt virkað síðan 1935. Það hlýtur að þurfa eitthvað ansi gott til að slíkt geti gengið.

Reglurnar kallast "Erfðavenjur" eða "Traditions" á ensku. Okkur til gagns og gamans prófaði ég að breyta þeim í þykjustunni siðareglur fyrir íslensk stjórnmál og stjórnmálamenn:

1. Sameiginleg velferð þegnanna situr í fyrirrúmi. Velsæld hvers og eins er undir einingu ríkisstjórnarinnar kominn.

2. Í málum stjórnmálaflokka ætti aðeins að vera einn leiðtogi, kærleiksríkur guð eins og hann birtist í samvisku hvers og eins. Forsvarsmenn flokkanna eru þjónar sem við treystum -en ekki stjórnendur.

3. Til þess að gerast stjórnmálamaður þarf aðeins eitt: Löngun til að verja hagsmuni þjóðarinnar.

4. Sérhver stjórnmálaflokkur á að vera sjálfstæður nema í málum er varða hagsmuni alþingis sem heildar.

5. Sérhver flokkur hefur aðeins eitt meginmarkmið: Að auka á lífsgæði íslenskra ríkisborgara.

6. Stjórnmálamaður eða flokkur ætti aldrei að ljá öðrum einstaklingum, samtökum eða málstað nafn sitt, fjármagn, fylgi- eða lausafé, svo eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki frá hinum upphaflega tilgangi.

7. Sérhver stjórnmálaflokkur ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð.

8. Félagar í stjórnmálaflokkum eru ætið einungis áhugamenn, en þjónustumiðstöðvar mega ráða launað starfsfólk (og þingmenn fá laun).

9. Stjórnmálaflokka sem slíka ætti aldrei að skipuleggja, en við getum myndað þjónustunefndir og ráð sem eru ábyrg gagnvart þeim sem þau starfa fyrir.

10. Stjórnmálaflokkar taka ekki afstöðu til annara mála en sinna eigin. Nöfnum þeirra ætti því að halda utan við deilur og dægurþras.

11. Afstaða hvers flokk út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. (Í fjölmiðlum ættum við ætíð að gæta nafnleyndar.)

12. (Nafnleyndin er andlegur grundvöllur erfðavenja okkar og minnir okkur á að setja málefni og markmið ofar eigin hag.) Set þessa nr. 12 og hluta af 11 í sviga þar sem flokkar eða stjórnmálamenn geta víst ekki verið nafnlausir en meiningin á bak við þetta er að láta egóið ekki yfirtaka málefni og markmið. Í tilviki AA samtakanna snýst þetta m.a. um að. nafnþekktir einstaklingar geri sig sjálfa ekki að andliti þeirra út á við og taki með því áhættu á að spilla orðspori samtakanna vegna hugsanlegra persónulegra mistaka.

Ja hérna hér....