Smá pæling
Siggi vinur minn er alltaf að spá í tilgangi lífsins og stundum verður hann dapur þegar hann sér að það er í raun engin niðurstaða.
Sjálfa grunar mig að tilgangur lífsins sé að viðhalda sjálfu sér. Allt sem lifir vill lifa áfram, lengur eða meira. Þetta á við um blóm, fólk, dýr... já, allt sem lifir.
Mannskepnan heldur oft að hún sé flóknari en hún í raun og veru er. Fattar ekki að meirihlutinn af því sem við gerum og þær ákvarðanir sem við tökum eru á einn eða annann hátt grundvallaðar á því að lífið geti viðhaldið sjálfu sér. Höldum að afleiðingar frumhvata séu ígrundaðar hugsanir þegar þær eru kannski ekkert annað en gredda eða hungur. Þetta er ekkert sérlega flókið.
En það er annað sem er kannski aðeins flóknara. Það að VERA TIL í samhengi við umhverfi og annað fólk.
Ég sé það "líf" fyrir mér eins og blátt, rafmagnað mynstur sem liggur þvers og kruss yfir jörðina og myndar eilífa röð/hringrás/mynstur orsaka og afleiðinga sem jarðarbúar halda almennt að þeir hafi alla stjórn á en hafa í raun ekki.
Og þá komum við aftur að þessu að lífið og mannskepnan eru á endalausri hreyfingu, stanslausar breytingar, ekkert kyrrt, aldrei. Hugmyndin um að við höfum einhvern kjarna eða festu er í raun bara ósk eftir stöðugleika en ekki staðreynd. Sorrý.
Og að stjórna? Kannski höfum við ekkert frjálst val af því það sem við veljum er alltaf afleiðing af röð atburða sem á undan eru gengnir og eru háðir því umhverfi sem við erum stödd í hverju sinni...
Það sem við veljum síðan er kannski ekki endilega beint val, heldur útilokun á öðrum möguleikum.
Dæmi:
Þegar við göngum yfir götu þá erum við búin að velja það og með því að labba yfir hana skiljum við eftir möguleikana hinu megin við götuna og þeir eru ekki lengur til af því um leið og við göngum yfir þá gerir tíminn það að verkum að möguleikarnir sem voru fyrir hendi, hinum megin við götuna breytast... af því það breytist alltaf allt með hverri sekúndu sem tifar.
Og við breytum eftir því hvernig aðrir breyta án þess að hafa minnstu hugmynd um það og svona fljótum við um í lífinu... svolítið eins og fiskar sem eiga ekki roð í strauma hafsins (en erum hafið í senn).
Annað dæmi:
Sigrún ákveður að hætta með Karli af því hún varð aftur ástfangin af fyrrverandi sem flutti aftur til Íslands frá Noregi þegar hann missti vinnuna af því eigandi fyrirtækisins varð að borga skuldir bróður síns sem hann hafði gengið í ábyrgð fyrir árið 1998. Heartbroken Karl fer því út að "skemmta" sér.
Á skemmtistaðnum hittir Karl gamlan félaga sinn, Guðjón, sem selur honum bíl sem hann hafði alltaf langað í. Þeir ganga frá kaupunum næsta dag. Karl keyrir til Selfoss og fær sér kaffi með gamalli frænku.
Guðjón fer með peningana sem hann fékk fyrir söluna og ætlar að kaupa sér flugmiða til Brasilíu en á ferðaskrifstofunni fellur hann fyrir sölukonunni og hættir við að fara út. Á leiðinni til Brasilíu ferst flugvélin sem hann ætlaði að fara með og allir sem voru um borð -deyja.
Guðjón prísar sig sælan, finnur fyrir smæð sinni og fer að trúa á Guð (við köllum svona tilfelli oft "Guð") en Karl, Sigrún og sölukonan trúa því öll að þau séu enn 100% við stjórnvölin í lífi sínu ásamt fleiri milljónum karla og kvenna um allan heim. En erum við að stjórna? (ég veit það ekki)
En segjum sem svo að þetta sé sannleikurinn og niðurstaðan... er þá ekki best að reyna að skemmta sér á meðan maður veltist svona randomly um í þessari skrítnu súpu? Segja bara "whutevah... I can do what I want!" af því maður hefur kannski ekkert um þetta að segja anyway.
Ertu til í að pæla aðeins í þessu í kvöld Siggi?
|