Fissti fissti núll níu
Byrjaði daginn á því að setja á mig iPod og ryksuga íbúðina með þetta á styrk sem dugði til að yfirgnæfa rykusuguhljóðið:
Reykti svo vindil út um gluggann, horfði á rigninguna og hugsaði með mér hvað það væri nú frábært að vera hætt að reykja.
Pældi í árinu sem er að renna upp og hvað mun gerast. Kannski verðum við eins og Austur-Evrópa? Það bendir allt til þess.
Heimsmeistarar í bankakreppu.
Litla Úkraína 2009
Hvernig sem árið fer og verður þá held ég að það sé nauðsynlegt að skemmta sér í þessu öllu. Vera ekki í einhverju finnsku þunglyndiskasti, með samanbitna kjálka og stara inn í svartholið meðan sólin skín.
Það er svo margt sem er skemmtilegt að gera... Og ef þetta verður bara hreint óbærilegt þá eru alltaf til skip og flugvélar. Maður getur bara farið.
Frændi minn á skip.
Ég get fengið það lánað kannski?
Atvinnuleysi var 7% árið 1975. Þá fóru fleiri tugir, jafnvel hundruð, íslendinga til Nýja Sjálands og Ástralíu. Nú er meira atvinnuleysi en þá... það fara pottþétt margir. Ný kynslóð Vestur-Íslendinga. Eða eins og maðurinn sagði:
"Abandoning crap is highly underestimated"
Og talandi um crap... Í kvöld ætlar undirrituð á alþýðlegan dansleik þar sem Sálin hans Jóns míns leikur fyrir dansi.
Bergdís hefur skammað mig fyrir að vera ekki nógu alþýðleg og nú ætla ég að reyna að bæta svolítið úr því fyrir hana. Ég hef t.d. aldrei horft á einn einasta þátt af Friends og aldrei farið á dansleik með Sálinni hans Jóns míns. Sorrý. Það hefur hún Hekla mín hinsvegar gert og mun ég vera undir verndarvæng sveitakonunnar í þessari ferð.
Veit náttúrlega ekkert hvernig mér á eftir að farnast þarna. Kannski verð ég algerlega trámatíseruð innan klukkutíma og flý heim á öðrum skónum kl 12...útkámuð í alþýðlegu brúnkukremi sveittra kvenna sem klíndust utan í mig á dansgólfinu... Kannski á ég eftir að sleppa mér og öskra "HEY KANÍNA" og góla "Níííínnnaaaa...." þar til ég verð alveg hás. Fara út úr líkamanum yfir í ókunna vídd alþýðlegrar alsælu, kynnast fyrrum fasteignasala á parketinu...fá mér notaðan Yaris innan árs? Klára alla seríuna af Friends... kaupa Sprite Zero, reykja Salem Lights á svölunum og...?
Nei.
En þetta verður eflaust forvitnilegt.
Ps. FYI: Myndina þarna tók ég af sjálfri mér í gærkvöldi þegar ég var að stilla vélina mína...
|