Ótti við breytingar
Ég stunda líkamsrækt á æfingarstöð í litla íhaldsbæjarfélaginu mínu á Seltjarnarnesi. Þar er gott útsýni yfir hverfi og sjó þegar maður hleypur á brettum.
Eins og gengur og gerist þá hugsar maður sitthvað á hlaupunum. Einhverntíma horfði ég á fallegu einbýlishúsin og hugsaði að í einhverjum af þessum húsum væru óhamingjusöm hjón sem orkuðu ekki að skilja af því þá þyrfti að fara að selja húsið, skipta upp eigum, koma ættingjum í uppnám og svo framvegis... og hvað myndu síðan allir halda um þau? Að þeim hefði mistekist? Að þau væru ekki í lagi? Já, hvað myndi fólk halda?
Horfði á steypukassana og rifjaði upp orðin í Englum Alheimsins... Kleppur er víða... og hugsaði að það sama mætti segja um fangelsin.
Ófullnægða konan hugsar að hennar bíði samt eflaust ekkert betra, því eins gott að sætta sig við þetta og karlinn hugsar að ekki nenni hann að fara að borða á Múlakaffi eða þvo af sér sjálfur... svo þau sætta sig við lágdeyðu, vanafast líf og áhugaleysi á hvort öðru. Af ótta við breytingar ákveða þau bæði að gera ekki neitt.
Frumkvæði annars þeirra gæti samt hugsanlega bjargað lífum beggja og þá á ég ekki við "líf" í bókstaflegri merkingu heldur tímann sem líður frá vöggu til grafar, því sem við gerum við hann og hvað það gefur okkur.
Svo sat ég í kökuboði í raðhúsi áðan þar sem fólk var að tala um ríkisstjórnina og það að ekki standi til að skipta út ráðherrum.
"Og hver á að taka við þessu í staðinn?," spurði ein. -"Hvern vilt þú sjá sem forsætisráðherra!?"
Mér varð þá aftur hugsað til konunnar sem spyr sig hvort hennar bíði eitthvað betra eftir skilnað, ákveður að svo sé ekki og lifir því sem eftir er ævinnar í fína húsinu sínu á nesinu... án hamingju og lífsfyllingu. Án ástar og ástríðu. Af því þannig er allt "öruggast". Þannig býr maður ekki til neitt uppnám. Þannig þarf ekki að leggja það á sig að aðlagast að breyttu ástandi -því hvað er skelfilegra en breytt ástand?
Það er svo merkilegt að þrátt fyrir óteljandi sannanir þess að þegar einum dyrum er lokað þá opnist aðrar er fólk alltaf svo hrætt við að loka. Ótti við breytingar heldur fólki í fjötrum. Mörg okkar eru óhamingjusöm árum saman af því við hræðumst það sem við ekki þekkjum. Þorum ekki að segja upp vinnu af ótta við að fá ekki aðra "jafngóða"... Það er ríghaldið í stöðuna sem skilar 9-5 í kassann -fölsku öryggi sem er um leið lamandi, heftandi og skerðandi.
Nú veit ég ekki hvort það er þessi ótti við breytingar sem heldur Haarde og félögum á sínum stað -en mig grunar það. Mig grunar að fólk sé hrætt, að flokkssystkin hans séu hrædd og að hann sjálfur sé hræddur...
"Hætta? En hvað á ég þá að gera?"
...við breytingar.
|