miðvikudagur, desember 31, 2008

Persónulegt frelsi

Ég var á kaffihúsi með vinkonu minni áðan. Hún er hálfur tékki og hálfur dani en jólunum eyddi hún í Tékklandi með mömmu sinni og fleiri ættingjum. Kom til baka á klakann í gær.

Sjálf kom ég til Tékklands fyrir tólf árum og eyddi þá jólum í Prag í 26 stiga frosti. Ég átti mjög góðan tíma þarna en ég man sérstaklega hvernig Tékkarnir komu mér fyrir sjónir. Mér fannst þau einhvernveginn hálf samanherpt og til baka með sig. Standandi hokin í strætóskýlum með hendur kýldar ofan í vasa. Allt öðruvísi í framgöngu en danir eða íslendingar eða aðrar þjóðir sem ég hafði þá kynnst.

Ég spurði vinkonu mína hvort stemmningin væri enn svona... tólf árum síðar. Hún sagði unga fólkið væri öllu afslappaðara, en að eldri kynslóðin væri enn haldin þessari tortryggni og vantrausti sem fylgir því að alast upp í kommúnistaríki. Nefndi sem dæmi að hún hafi verið að taka myndir í kirkjugarði þegar eldri kona kom að henni og spurði með stressaðri röddu hvað hún ætlaði sér að gera við þessar myndir.

Svo var kreppan á Íslandi rædd í jólaboði í Tékklandi. Tékknesk frænka vinkonunnar, sem man víst tímana tvenna, sagði að fátækt væri lítið mál miðað við skerðingu á persónulegu frelsi og óttavæðingu á heilu samfélagi.
Hún sagði að við hér á Íslandi gætum vel komist í gegnum smá veraldlega fátækt en að það síðasta sem við vildum missa væri frelsi til athafna eða tjáningar og í þeim orðum töluðum spennti hún greipar og sagði "Því vona ég til Guðs að þið gerið ekki samninga við Rússa. Afleiðingar þess gætu verið ófyrirsjáanlegar."

Ég tek undir orð frænkunnar. Vona að það verði ekki gerðir einhverjir heimskulegir samningar hérna til að "redda" tímabundnu ástandi.
Og er yfirleitt hægt að kalla eithvað "samning" þegar 300.000 manns gera díl við ofjarla sína, t.d. við 143 milljónir manna sem hafa allt önnur menningarleg gildi en við?

Held ekki.