þriðjudagur, desember 16, 2008

Ástarmál

Stelpa sem ég þekki tjáði mér að strákur, eða maður, hefði reynt að fara í sleik við hana.

Ég skildi ekki alveg hvernig er hægt að "reyna að fara í sleik" við einhvern og hún útskýrði það þannig að hann hefði verið að smella á hana kveðjukossi sem hann reyndi að gera að sleik. Semsagt reyndi að búa til leðjukoss en ekki kveðjukoss.

Hún var ekki til í þetta og smeygði sér einhvernveginn undan en auðvitað keyrði hún heim hugsandi non-stop um mögulegar afleiðingar þess hefði hún þegið sleikinn.

Ég hef aðeins pælt í því undanfarið hvort einkalíf okkar sé ekki það sem skipti hvern og einn mestu máli af öllum málum...svona undir niðri.

Um daginn var ég stödd í veislu þar sem slatti af þekktu fólki var samankomið. Ég vissi af nokkrum framhjáhöldum á meðal gesta. Vissi hver vissi hvað og hver vissi ekki neitt. Vissi hver hafði kannski sent einhverjum skilaboð einhverntíma, hver hafði svarað, hver hafði orðið hvumsa, hver hafði spurt í þaula og hver ekki neitt (...veit í raun meira en mig langar að vita um sumt fólk).

Þarna var líka fólk sem hafði einu sinni verið saman, hætti svo saman og tók saman við einhverja aðra sem voru þarna líka. Ein kona í veislunni átti mann sem ég veit að er ekki snefil ástfangin af henni. Hann vaknar á hverjum morgni og hugsar um aðra konu. Það getur ekki verið mjög skemmtilegt. Skrítið hvað fólk getur stundum verið lengi að átta sig...

Þetta einkalífs drama getur verið mjög áhugavert.

... ef þú vissir, ef þú bara vissir... ef þú vissir þaðððð... (lag: ef þú giftist).