laugardagur, desember 27, 2008

Munurinn á kynjunum

Fyrir nokkrum árum sá ég heimildarþátt á Discovery um lesbískar konur sem vildu láta breyta sér í karla. Þessi mynd hafði afgerandi áhrif á hvernig ég lít á muninn sem liggur milli karla og kvenna ásamt fléttum úr öðrum áttum sem ég ætla að nefna á eftir.

Í myndinni fylgdist maður semsagt með nokkrum stelpum sem vildu verða strákar. Meðferðin fól aðallega í sér að þeim voru gefnar sprautur af testesteróni en áður en sú innspýting fór af stað voru gerðar á stelpunum allskonar mælingar.
Meðal annars var tekinn tíminn á því hvað þær voru lengi að hlaupa ákveðna vegalengd, hvernig gekk að leysa einhverjar þrautir og síðast en ekki síst, hvernig gekk að lesa tilfinningar út úr svipbrigðum andlita sem birtust þeim á myndvarpa. Svo var byrjað að dæla testesteróninu og það stóð í heilt ár þar til næstu mælingar voru gerðar.

Að þessu ári liðnu var aftur farið í prófanir og viti menn, niðurstöðurnar voru allt öðruvísi. Stelpurnar hlupu hringinn hraðar, voru fljótari að leysa sumar þrautir og lengur að leysa aðrar og þetta með andlitin, já... tilfinningar -hvað er það?
Svo töluðu þær um breytta líðan. Árásargjarnari, fljótari upp, lengur að tárast, öðruvísi fókus og sitthvað fleira. Semsagt... kona á testesteróni er öðruvísi/karlmannlegri en kona sem er ekki á testesteróni.

Og ég fór að velta þessu fyrir mér í samhengi við jafnréttisbaráttuna og umræðu um félagsmótun. Fannst þá eins og þáttur félagsmótunar væri ekki mjög stór miðað við þætti hormónastarfseminnar og þau áhrif sem hormónar hafa á líf okkar.

Þetta stjórnar nefninlega svo ótrúlega miklu án þess að það sé mikið rætt.

Tökum t.d. tíðahring kvenna. Konur fara á blæðingar í hverjum mánuði og sá tími stendur í um það bil fjórðung hvers mánaðar. Alveg frá því að líkaminn fer að sýna merki þess að blæðingar séu á leiðinni þangað til þær eru alveg búnar. Þetta tekur svona 8-10 daga að meðaltali og skömmu síðar verður egglos sem hefur aftur áhrif á sál og sinni. Að reyna að halda því fram að þetta hafi engin veruleg áhrif er í besta falli afneitun, versta falli heimska.

Joseph Campbell talaði um manndómsvígslur í viðtalsbók við Fraser Boa. Þar sagði hann m.a. að "manndómsvígsla" konunnar kæmi frá sjálfri náttúrunni þegar hún byrjaði á blæðingum. Að þá tæki lífið yfirhöndina umfram hennar persónulega viljaásetning og að konan þyrfti að verða undirgefin náttúrunni hvort sem hana langaði til þess eða ekki.
Karlar verða ekki fyrir neinu álíka. Þeirra manndómsvígslur koma frá þjóðfélaginu, fólki í kringum þá -(ef þeir hljóta þá nokkurntíma slíkar vígslur).

Hjá ættbálkum frumstæðra þjóða ganga manndómsvígslur út á að láta unga menn finna fyrir sársauka sem minnir á að það er eitthvað stærra til í heiminum en þeir sjálfir. Þeir verða að upplifa undirgefni við eitthvað annað en eigin viljaásetning til að þroskast úr dreng yfir í karlmann.

"This happens naturally with a woman. She lives a life of nature whether she wills or nils...but with the male, nature doesn´t do this to him. Society does it and life does it and he's got to learn to live for something else besides his own little ego will."

og svo...

"I think that women are much more immediatly the victims of biology than men. Women of today have been sold a bill of goods by the male-oriented society which is stressing achivement rather than being".

Og þar komum við að máli málanna.

Ég skil ekki jafnréttisbaráttu sem gengur út á að konur verði að einhverskonar karl-konum og að gildismat karla, sem stjórnast meðal annars af áhrifum hormóna á líkama þeirra, þurfi að verða að einhverju sem konur eiga að keppa að.
Um daginn sagði karlmannlegur vinur minn mér að sér liði ekki beint vel þegar hann væri að "gera ekki neitt" og ég hugsaði "achivement rather than being" og brosti án þess að útskýra. Fannst þetta bara sætt. Hann þarf alltaf að vera að keppa að einhverju marki. Og talandi um keppni -Íþróttamenn sprauta sig stundum með testesteróni til að ganga betur í keppni. Líf karlmannsins er mikil keppni.

Mér finnst svo skrítið að þessi svonefnda "jafnréttisbarátta" skuli ganga svo mikið út á kynferðismál og að "koma konum í stjórnunarstöður" í stað þess að fókusera á að bæta þær stöður sem þær hafa valið sér í gegnum tíðina og virðast gravitera í áttina að...eins og t.d. margskonar umönnun, kennsla og fleira sem krefst þess ekki endilega að maður keppi.

Þær "feministaraddir" sem hljóma hæst á íslandi eru raddir kvenmanna sem koma úr háskólanum, langar í stjórnunarstöður og vilja ekki vera "bara kynverur". Þær æpa og eipsjitta á eigin forsendum og virðist ekki alltaf mjög vel við karla. En er þeim vel við sjálfar sig?

Það er náttúrlega lýðnum ljóst að konur um heim allann njóta ekki sömu virðingar eða frelsis og karlar. Því ætti þessi blessaða "barátta" frekar að snúast um það í grunninn að fólk, konur og karlar, læri að bera virðingu fyrir konum í stað þess að konur séu á harðaspretti eftir gildismati karla til að fá þá virðingu sem þær óska sér. Það er bara ekki málið.

Auðvitað eru alltaf frávik og undantekningar. Það eru til "karlmannlegar" konur og "kvenlegir" karlar og það er allt í góðu með það en það er sorglegt að við skulum öll frekar taka mark á konu með dimma rödd en háa og að kvenlegur karl þyki ekki eins ágætur og aðrir karlar. Leitt að kona skuli vera kölluð ráð-herra af því herra þykir fínt en að þegar karlar byrja að vinna við þjónustustörf verði flugfreyja að flugþjóni og þegar karl fer í hjúkrun þá verður hjúkrunarkona að hjúkrunarfræðingi.

Það er eiginlega hálf fúlt hvað konum og körlum þykir það kvenlega almennt ófínt (pjatt, viðkvæmni, sjálfsfórn, ofl) og hversu mikil áhersla er lögð á að konur þrífist í þjóðfélaginu á sama hátt og karlar.
Svo getur það líka bara verið svo erfitt og þreytandi... sérstaklega þegar þú þarft að vera "undirgefin náttúrunni" einn fjórða úr mánuðinum og langar mest til að sjá til þess að börn og bura hafi það sem best.

Hér er linkur á umfjöllun um testesterón og viðtal This American life við konu sem fór í svona aðgerð. Mjög forvitnilegt.