laugardagur, desember 13, 2008

Leikhús eftir ljóðskáld

Ég fór í leikhús í gær að sjá leikritið Utan Gátta eftir ljóðskáldið mjóa hann Sigurð Pálsson.

Það var svolítið spes að horfa á þetta. Sviðsmyndin var einkar fín og sniðug og leikararnir voru rosalega sniðugir og skemmtilegir en það var engin bein saga í gangi. Öllu heldur einhverjar þreifingar í sambandi við náin mannleg samskipti. Samskipti kynja og samskipti einstaklings við sjálfan sig. Æðra sjálfið og hitt sjálfið -eða fávitasjálfin tvö ef maður býr ekki betur. Sumir hafa ekkert "æðra".

Mér var á köflum hugsað til Andre Breton sem lokaði sig inni í herbergi, hélt sér vakandi og skrifaði í svefnrofunum eitthvað sem varð upphaf súrrealismans. Orðaromsur þar sem eitt leiðir af öðru en er samt algerlega samhengislaust. Það var farið út um víðan völl í textanum og stundum fannst mér þetta vera eins og hugsanir í klikkuðum haus sem hefur fengið sér aðeins of mikið kaffi eða hugsar einfaldlega aðeins of mikið um hluti sem skipta ekki miklu máli.

Í öllu orðaflóðinu greip ég samt nokkrar setningar sem ég kunni vel að meta. Og fyrir augun var þetta skemmtilegt mjög. Augunum fannst mjög gaman að horfa á leiksviðið og upplifa það sem fram fór þar... En heilanum fannst orðin vera full nærri sjálfum sér þegar hann skortir allt zen, er svefnvana og skortir b-vítamín... semsagt þegar hann er ekki upp á sitt besta. Þá hegða hugsanirnar og sjálfið sér á svipaðan hátt og karakterarnir í þessu leikriti. Kannski að ljóðskáldinu hafi tekist ágætlega að koma þessu experimenti til skila?

Hvað veit ég? Ég er bara ljóska.