Kaufman, Carnegie, árshátíðir ofl
Fór á skemmtilegan myndlistar/skáldsöguviðburð í kvöld. Ásmundur Ásmundsson var að gefa út bókina Díana í snjónum, en hún fjallar um líf Díönu prinsessu í hinni víddinni. S.s. þessari sem hún fór í þegar hún dó.
Ragnar Kjartansson myndskreytti bókina með fínum, svolítið fiftís-legum myndum.
Ég keypti bókina og er þegar búin að lesa aðeins í henni. Hún virkar fyndin og skemmtileg. Hlakka til að lesa meira.
Hitti nokkrar skemmtilegar manneskjur í boðinu. Meðal annars tvo hressa myndasögumenn/teiknara.
Við töluðum aðeins um hvernig það er að vera í matarboði og leiðast samtölin. Ég og annar þessara myndasögumanna eigum það sameiginlegt að fara stundum út í þann galskap að stríða fólki ef okkur leiðist. Reyna að brydda upp á einhverju út í hött samtali eða segja eitthvað sem einfaldlega kallar fram viðbrögð frá hinum. Sama hvernig viðbrögð. Helst eitthvað sem kemur með svipbrigðum og roðni og svona.
Hann talaði um að þetta væri kannski einhver tegund af einhverfu.
Ég gæti í raun vel trúað því.
Sem betur fer eldist þó svona einhverfa af manni. Eftir því sem hún hefur rjátlað meira af mér hefur félagsfærni mín aukist í jöfnu hlutfalli en hún var ekki upp á marga fiska hér í denn. Þá lifði ég hálfgerðri Andy Kaufman tilveru þar sem flestar mínar félagslegu skemmtanir gengu út á einhverskonar one-way djók af minni hálfu. Það er ekkert mikill Dale Carnegie yfir því og skapar manni ekkert endilega mikið poppúlarítet. Sérstaklega ekki ef maður gefur sig ekki út fyrir það opinberlega að vera grínisti.
Annars er þetta kannski allt í lagi?
Það er deginum ljósara að það er sjaldnast maturinn sem skiptir máli heldur fólkið sem maður borðar hann með. Þessvegna eru árshátíðir einmitt oft svo ömurlegar og alverstar ef maður er "maki" og um vinnustaðaárshátíð er að ræða. Þá siturðu þarna í einhverjum ýktum sparifötum og borðar, kaldan, fjöldaframreiddan mat með fólki sem þú þekkir oft ekki neitt og ert einhvernveginn hækja makans og upp á hann kominn. Það er af þessari ástæðu sem makarnir verða alltaf fullir á undan hinum. Til að losna við þjáninguna. Hinir segja "vinnustaðabrandara", konurnar keppa í því hver er flottust -svo endar þetta á epískum trúnós og gáleysislegum athugasemdum á víxl... og kekkjóttri stemmningu næsta vinnudag "Hahahaha... helvíti varstu hress á árshátíðinni!".Öh...
Ég er svo heppin að vera ekki maki neins þessi áramótin og því þarf ég ekki að taka þátt í svona uppákomu. Vinnustaðurinn minn er mjög fámennur og síðasta árshátíð heppnaðist fínt af því við vorum sjálf með skemmtiatriði en þurftum ekki bara að horfa á þau. Maður skemmtir til að gleyma. Ég endaði á sviði með gyðingahörpu og hljómsveit. Svo kom danskennari og kenndi okkur að dansa við Grease. Fínt. Mjög gott.
Að lokum finnst mér ég verði að geta þess að yfir kvöldmatnum gátu Helga og Trausti talað i svona korter um muninn á Vals tómatsósu og Hunts tómatsósu annarsvegar og muninn á Dijon sinnepi og SS sinnepi hins vegar.
Trausti sagði að þetta væri ekkert sem maður ætti að bera saman. Og að ef Dijon kæmi ekki frá Frakklandi þá væri það ekki Dijon. Sinnepskrukka var tekin úr ísskápnum til að undirstrika mikilvægi málsins. Ég hafði það til málanna að leggja að pylsan framan á SS sinnepinu minnti mig á mann sem ég var einu sinni skotin í. Hann var ekki vel vaxin.
Merkilegt nokk fannst mér þetta fallega leiðinlegt samtal. Kannski á Andy Warholska vísu?... Það var í eðli sínu svo leiðinlegt að það mjakaði sér yfir á eitthvað annað stig. Nánast andlegt.
Nevermind. Þetta er Andy Kaufman að skamma suðurríkjabúa fyrir að vera skítugir og ógeðslegir. Andy má kalla andlegan leiðtoga Ali G (Sasha Baron Cohen), Silvíu Nætur (Ágústu Evu) og allra þeirra guðs-barna sem leggja eigið mannorð að veði fyrir smá djók (eða mikið djók):
|