laugardagur, desember 13, 2008

Hvernig búum við til peninga?

Það er eitt sem mér finnst svolítið skrítið og það eerrrr að á meðan maður heyrir endalaust af lánum, skuldum og niðurskurði virðist maður ekkert heyra frá sama fólki um hvernig það hyggst skapa peninga til að borga þetta upp og jafna stöðuna.

Þarf ekki að setja jafn mikla orku í þau mál eins og sparnaðinn? Það þarf sannarlega eitthvað að koma á móti.

Þegar Finnar horfa um öxl krossa þeir sig yfir því hvað þeir voru fljótir að huga að nýsköpun og nýjum leiðum til að skapa fjármagn í kreppunni. Þurfa stjórnvöld hér ekki að setja saman einhverja hópa sem fókusera á þetta frá morgni til kvölds?

Af hverju hef ég bara heyrt af Björk og einhverju krúi í HR sem er að stússast í þessu ein og óháð? Af hverju heyrir maður ekki af nefndum sem vinna að því hörðum hug og höndum að afla fjár? Heyri bara af fólki sem er að finna út hvernig er hægt að skera niður og spara.

Heimilisbókhaldið mitt virkar þannig að ef ég sé höggvast af einhversstaðar þá hugsa ég umsvifalaust um leið til að fylla það skarð. Til að halda jafnvægi á vegasaltinu.

Margt smátt gerir eitt stórt. Hversu lítið sem framlagið er þá skiptir allt máli. Allt sem getur fært tekjur til þessarar þjóðar skiptir máli og það þarf að spýta í lófana og bretta upp ermar -Núna!