föstudagur, nóvember 28, 2008

Að tala illa um aðra

Ég erlendan vin búsettan hér á Íslandi. Hann var að pirra sig á því um daginn hvað fólk hérna getur talað illa um hvert annað. Honum þótti þetta harla tilgangslaust í svona litlu samfélagi og var satt best að segja mjög pirraður á þessu.

"Af hverju má fólk ekki bara vera eins og það er!?" sagði hann í svolítilli geðshræringu og ergelsi yfir þessu.

"Hvað er t.d. að því að vera... spes? Það er lenska hérna að reyna alltaf að troða fólki í kassa og ef það kemst ekki alveg í hann þá er það stimplað spes eins og það eigi að vera eitthvað slæmt -en er fólk ekki spes? Er það ekki þannig sem manneskjur ERU?" sagði útlendingurinn og var ekki skemmt.

Og ég rifjaði upp eitthvað sem ég hugsaði þegar ég flutti heim frá Danmörku á sínum tíma. Þá sá ég svo margt með augum útlendingsins og niðurstaðan varð þessi:

Í Danmörku ertu í lagi þar til þú sannar að þú sért fífl
Á Íslandi ertu fífl þar til þú sannar að þú sért í lagi

Þetta stafar vitanlega ekki af neinu öðru en samanburðarminnimáttarkennd sem verður til af ótta við að verða undir í samkeppni þar sem fáir keppa.
Sorglegt en satt og ég tek heilshugar undir þessi orð útlendingsins að samfélagið hér sé allt of lítið til að fólk sé að leyfa sér að tala illa um kunningja sína í einhverju tilgangsleysi.
Það er eins og að tala illa um vinnufélaga sem þú þarft að sitja með í vinnunni á hverjum degi. Hvaða heimska er það? Svipað og að ganga örna sinna á sama stað og þú matast.
Búa til vonda stemmningu á stað sem þú verður að dveljast átta tíma á dag.
Ekki skynsamlegt.