föstudagur, nóvember 28, 2008

Örlög

Dale

Dale frændi kom til Íslands í kringum 1985. Hann var systursonur ömmu en Ninna hafði flutt með hermanni til Bandaríkjanna eftir seinna stríð og þar átti hún með honum tvo syni.

Dale hafði glímt við heróínfíkn þegar hann bjó í USA og kom hingað gagngert til að hætta því. Það tókst ágætlega þar sem ekkert heróín var hér að finna í þá daga. Honum gekk ágætlega. Fékk vinnu á bifreiðarverkstæði sem var við Hlemm. Ég man að ég kom stundum þangað til að fá hann til að skreppa í Ríkið fyrir mig sem hann gerði alltaf með glöðu geði. Hann reykti Camel með filter. Var fyrsti maðurinn sem ég sá reykja þá sort.

Eftir um það bil ár á Íslandi kynntist Dale henni Christine. Þau urðu ástfanginn og fóru að búa saman. Hún vann í Sjóklæðagerðinni og var frá Skotlandi. Kenndi mér að búa til eggjahrærur. Var með þykkt, dökkt hrokkið hár og stór augu. Þau eignuðust drenginn Steven og fluttu saman til Bandaríkjanna eftir að hafa verið hér í nokkur ár.

Það besta sem Dale skildi eftir var gríðarmikið plötusafn heima hjá mér. Allt með Janis, allt með Stones og allt með Jimi svo fátt eitt sé nefnt. Ég er honum enn þakklát fyrir það.

Stöku sinnum bárust fréttir af hjónunum til Íslands. Fyrsta vonda fréttin var að áfengisneysla þeirra beggja var mikil. Með tímanum fór hún svo úr böndunum að sonurinn var tekinn frá þeim. Síðar eignuðust þau tvo syni í viðbót og þeir báðir voru teknir og komið fyrir í fóstri.
Þau drukku út alla peninga sem þau eignuðust. Hættu að geta unnið, fóru á bísann og á endanum voru þeim skammtaðir matarmiðar af kommúnunni. Það var ekki hægt að drekka fyrir matarmiða.

Einn daginn vaknaði Dale við það að Christine var dáin. Hún hafði sofnað á sófanum heima hjá þeim og vaknaði ekki aftur. Christine var tæplega fertug.

Dale dó næsta dag.

Blessuð sé minning þeirra.