miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Ég þarf ekki að kyssa lúða

Ég hef sjaldan kosið frá því ég fékk til þess réttinn. Mig minnir að ég hafi exað þrisvar. Tvisvar við Vinstri Græna og einu sinni Sjálfstæðisflokkinn. Er s.s hægri græn -eða vinstri blá?

Ástæða þess að ég skila stundum auðu er sú sama og ástæða þess að ég fer ein heim af ballinu. Þótt það standi fimm lúðar fyrir framan mig og langi til að kyssa mig þá ber mér engin skylda til að kyssa þá á móti. Ég skila auðu, segi pass og hleyp heim. -Til hvers að velja næst skásta kostinn eða fjórða skásta þegar það sem ég raunverulega vill er ekki í boði?

Ég er á þeirri skoðun að það taki stjórnmálamann langan tíma að sanna getu sína til góðra verka. Það tekur enn lengri tíma að sanna heilindi á þessum vettvangi. Allir virðast geta orðið pólitíkusar en hvort þeir séu hæfir til að stjórna eða koma með góðar hugmyndir... það er svo aftur annað mál.

Persónulega finnst mér flestir hérna hálf slappir eitthvað. Og eftir að hafa fylgst með fólki fara í gegnum menntaskóla og síðan í einhvern flokk og þaðan á þing þá hef ég fengið það staðfest að það þarf hvorki gáfur né skipulagshæfni til þess arna. Bara ákveðinn metnað, sleikjuskap og viljann til að koma sér áfram.

Og nú er fólk að hrópa að það verði að boða til nýrra kosninga.

Þetta finnst mér þvæla. Til hvers? Er þá ekki skömminni skárra að láta þetta fólk sem er þó komið með hælana eitthvert í krísumálunum þar sem aðrir hafa ekki einu sinni tærnar og láta það klára þetta? Verðum við að skipta Hans klaufa út fyrir Bakkabræður?
En...þegar Hans klaufi hefur lokið því sem hann þó er búinn að setja sig inn í og málin kominn í farveg á ekki að fara að kjósa sömu þvæluna yfir sig heldur búa til nýtt kerfi og skipuleggja það síðan í framhaldinu.
Ráða í embættin en ekki láta hinn og þennan stjórna heilu ráðuneytunum. Dýralækni í fjármálin og heimspeking í bankamálin t.d. Hvað... Skósmið í heilbrigðisráðuneytið og förðunarfræðing í samgöngurnar? Meikar þetta virkilega sens?

Það sem stjórnmálamaður þarf að hafa til að fólk falli fyrir viðkomandi er fyrst og fremst sannfæringarkraftur. En veistu hvað...? Charles Manson hafði mjög mikinn sannfæringarkraft og það gerði Hitler líka. Fólkið hreifst af Hitler og fannst allt sem upp úr honum vall vera útfrymi sannleikans. Þangað til annað kom í ljós.

Ef við ætluðum að fara að kjósa upp á nýtt þá myndum við fá allskonar apaketti upp á stokk með heilan hug á að nýta sér kaosið sér til framdráttar. Og við myndum fá sömu vitleysuna yfir okkur aftur. Sama fólkið með smá blæbrigðum til hægri eða vinstri. Höfum ekki efni á slíkum uppátækjum eins og sakir standa.

Ef það á að breyta EINHVERJU þá skulum við gera það almenninlega en ekki koma með aðra útgáfu af þessu sem fyrir er... og þá jafnvel verri.

Við höfum ekki tíma fyrir allt þetta tos og tog og alla þá mannlegu bresti sem flækjast fyrir framförum. Bresti eins og að láta eigin hag ofar málefnum og málstað og þar má t.d. nefna eigin metorðagirnd eða oflátungshátt og ofmat á eigin hæfni til að meta og ráða úr aðstæðum.

Það þarf eitthvað nýtt. Það þyrfti til dæmis krísuteymi af hæfum erlendum sérfræðingum SEM HAFA LENT Í SVONA ÁÐUR til að leysa þessar flækjur okkar en þeim er ekki hleypt inn af því nú finnst núverandi skósmiðum þeirra tími kominn til að sanna sig. Klímax ferilsins. Loksins eitthvað að gerast... (þú skilur). Þetta eru mannlegir brestir og þeir koma í veg fyrir að réttu lausnirnar nái fram.

Geir getur ekki skákað Davíð af því þeir hafa verið vinir síðan í MR. Það er rótgróið og gamalt samskiptamynstur á milli þeirra og þannig er það reyndar með ansi marga sem taka stórar ákvarðanir á þessu landi. Við erum eins og stór, dysfönksjónal fjölskylda og það þarf utanaðkomandi ráðgjafa til að hjálpa þessari fjölskyldu. Að hræra í grautnum mun ekki leysa neinn vanda heldur flækja hann enn meira.

Og hvað hann Davíð greyið varðar þá held ég að hann haldi þetta ekkert út neitt mikið lengur. Hann hefur ekki heilsu til þess. Hvorki andlega né líkamlega. Málin munu því leysa sig sjálf.

En framtíðin er óskrifað blað og það má ansi miklu breyta. Í raun finnst mér þetta lærdómsríkur tími og það verður virkilega skemmtilegt að sjá hvað kemur í staðinn fyrir þetta sem við höfum sannreynt að virkar ekki.

Ég er persónulega vongóð og bjartsýn. Vona að þú sért það líka.