Brotni blómapotturinn
Eitt af því áhrifaríkasta sem mamma notaði í uppeldinu á mér voru máltæki og málshættir. Eitt af þessum máltækjum sem höfðu sterk áhrif voru "Þú skalt ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér."
Mér varð hugsað til þessa þegar ég sá Hollendingana í fréttum áðan. Hugsaði líka um áhersluna sem hún lagði á að maður ætti aldrei að skulda neitt. Borga skuldirnar og lifa þá bara á því litla sem væri eftir.
Ég hef alltaf gert þetta og aldrei lent í neinu veseni. Enda stigmagnast alltaf svona vesen og því best að forðast þau.
Deilan milli Íslendinga og Breta (og Hollendinga) er á allann hátt furðuleg.
Minnir mig svolítið á rifrildi milli manns og konu þar sem bæði fara langt frá efninu og hengja sig í einhver undarleg smáatriði sem litlu skipta og hafa jafnvel ekkert með ástæðu rifrildisins að gera.
Þetta mál. Þetta stóra mál að Landsbankinn skuldi fullt af fólki fullt af peningum er sannarlega ekki gott og ef ég væri persónulega í þessari stöðu gagnvart einhverjum þá væru hvorki amma né mamma hressar.
Vissulega ætti það að vera forgangsatriði að borga þessu fólki í stað þess að hengja sig á þetta með "hryðjuverkalögin" og taka lopapeysumyndir sem eiga að afsanna það að við séum terroristar. Það er álíka sniðugt og að setja fókusinn á að einhver hafi brotið blómapott í rifrildi þegar blómapotturinn skiptir í sjálfu sér engu máli. En samt fer allt að snúast um blómapottinn af því það er betra að snúa vörn í sókn... eða hvað? Þetta virkar svolítið þannig.
Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.
Ef við værum í sömu stöðu og Bretar. Ef fjöldinn allur af Íslendingum hefðu lagt peningana sína, peninga barna sinna, sveitafélaga, peninga sem átti að fara í að hjálpa krabbameinsveikum börnum, peninga sem áttu að fara í allt milli himins og jarðar... ef OKKAR peningar hefðu farið á Breska bók og væru svo skyndilega horfnir án þess að við vissum hvar þeir væru... þá er ekki ólíklegt að það væri gripið til róttækra, jafnvel örþrifa ráða.
Ef maður rekur þetta aftur þá er alveg ljóst að ábyrgðin er hér á klakanum. Það er ekki hægt að reyna að koma henni yfir á Breta eða neina aðra. Það er ekki flott að væla og segja að það sé verið að "sparka í smáþjóð"... Vera "smáþjóð" þegar okkur hentar og "stórþjóð" þegar okkur hentar. Það er í besta falli smekklaust.
Það er alveg líklegt að Brown og Darling hafi séð sér leik á borði til að skora kredit þegar þetta gerðist og byrjað að benda á brotna blómapottinn. Þeir hefðu eflaust getað brugðist öðruvísi við en það á ekki að fría okkar þjóð frá þeirri ábyrgð sem hún hefur gagnvart sínu fjármálakerfi.
Fyrir mér er þetta ekkert óskaplega flókið. Fjármálaeftirlit á Íslandi brást fyrir nokkrum árum og ekkert virðist hafa verið gert til að hefta vöxt bankakerfisins hérna sem þandist upp eins og baunagrasið hans Jóa. Kannski var eitthvað reynt...það voru einhverjir sem fóru á fundi seint um kvöld og sumir stóðu aftast í salnum og reyndu að láta í sér heyra... en það var greinilega ekki hlustað... og hverjum er þá um að kenna? Þeim sem ekki hlustuðu eða þeim sem öskruðu ekki nægilega hátt?
Og þarf þetta yfirleitt að vera einhverjum að kenna? Kemur það til með að leysa eitthvað í dag að finna út hverjum þetta er að kenna og benda á blómapottinn? Er það ekki frekar óþroskuð afstaða?
Mér verður hugsað til Wittgensteins:
"Don't get involved in partial problems, but always take flight to where there is a free view over the whole single great problem, even if this view is still not a clear one."
og...
"There are remarks that sow and remarks that reap."
Ludwig Wittgenstein
|