Eins og hrúga af taflmönnum
Staðan sem er í gangi hjá þjóðinni núna minnir mig bara á eitt.
Hrúgu af taflmönnum sem liggja allir á miðju skákborðinu og enginn er byrjaður að raða upp.
Stærðir vandamálanna sem þjóðin stendur frammi fyrir eru miklar (taflmennirnir).
Við erum að tala um óðaverðbólgu, atvinnuleysi, gjaldþrot, lausafjárskort, óhæfa stjórnendur, óeðlileg hagsmunatengsl og margt annað... allt á sama tíma.
Úr verður þetta sem fær mig til að hugsa um haug af taflmönnum á borði eða "snjó" sem þyrlast um inni í kúlu og á eftir að falla til botns.
Fólk veltir því fyrst og fremst fyrir sér hvernig þessi kreppa muni koma við eigið skinn. Um leið hugsar það upp leiðir út úr ógöngunum. Hvernig er hægt að redda sér? Það hugsar um að fara úr landi og á sama tíma stokka upp kerfið í þessu landi eins og það leggur sig. Mjög margir eru reiðir og það er skiljanlegt... en ég er bara hrædd um að þessar ásakanir og hróp og köll komi til með að tefja fyrir batanum.
Ég var að hlusta á ræðuna hans Obama og tvö orð vöktu sérstaklega athygli mína. "Humility and determination" eða auðmýkt og staðfastur vilji og þessi orð notaði hann þegar hann talaði um að þjóðin þyrfti að standa saman til að leysa úr vandamálum sínum sem hafa aldrei verið meiri, eins og hann orðaði það...
Það væri fínt að fá svona coach eins og nýja Bandaríkjaforsetan hingað á landið okkar. Okkar leiðtogi, hann Geir H. Haarde blessaður virðist ekki gera mikið til að róa mannskapinn. Hann hélt þarna einhverja heimsendaræðu í sjónvarpinu en skilur samt allt eftir í lausu lofti. Það besta sem hann gæti gert núna væri að koma með eitthvað konkret. Til dæmis hvað er það versta sem við gætum upplifað og hvað er það skásta. Eins og ég hugsa oft... Að vona það besta en vera viðbúin því versta.
Sem dæmi get ég nefnt þetta með að vita ekki hversu mikið maður skuldar. Ef maður veit það, jafnvel þó staðan sé ekki góð, þá er í það minnsta hægt að gera áætlun um hvernig eigi að leysa málið og taka svo eitt skref í einu. Þess í stað hefur hann bara mætt og sagt að staðan sé slæm en aldrei hvernig slæm eða enn mikilvægara... hvað sé til ráða.
Að faðma hvort annað leysir ekki fjárhagsvandann jafnvel þó faðmlög séu alltaf góð. Samstaða leysir hann hinsvegar og að sortera vandamálin og skipa svo í lið sem eiga að ráðast í hvern vanda fyrir sig samkvæmt mjög ákveðinni forgangsröð.
Þessi lið ætti að setja saman með fagfólki sem kemur frá öðrum löndum (helst norður). Fólki sem hefur glímt við svipuð vandamál áður og tókst vel að leysa þau. Fólk sem hefur teflt þessar skákir. Við hin getum svo farið í einskonar sjálfboðastarf og gert okkar besta til að hjálpa til og um leið gert nýtt skipulag sem virkar betur en þetta gamla. Svona eins og að ráða fólk til að taka til heima hjá sér og þegar það er búið verður mikið auðveldara að sortera úr skápunum og taka til í geymslunni.
En það þarf að raða þessu upp. Mjöööög skipulega. Og það þarf að ákveða hvað á að gera við tímann meðan beðið er eftir svörum um mögulegar lausnir og hafa tilbúið plan b og c ef svo ber undir. Og hann Geir þarf að koma í sjónvarpið og segja það sem við þurfum að heyra.
Ef hann heldur að hann sé að hlífa mannskapnum með því að segja hlutina ekki beint út þá skapar hann sér óvinsældir. En hann virkar bara eins og hann sé meðvirkur og hræddur við að konfrontera og tala út úr skegginu. Hugsanlega veit hann heldur ekkert hvað er að fara að gerast... en ef hann bara myndi segja það sem hann veit hreint út og heiðarlega um leið og hann veit það... þá væri hálfur sigur unninn og öllum liði betur því þá gætum við líka hugsað upp okkar persónulegu bjargráð.
Það þarf að skýra þetta allt saman. Ein hugmynd væri að setja upp vefsíðu þar sem hvert vandamál fyrir sig er listað og svo gæti maður fylgst með úrvinnslu þess dag frá degi. Það myndi láta okkur öllum líða betur held ég.
Geir... viltu gera þetta fyrir hana Margréti sína?
|