Af hæðum og smæðum
Í gær skrapp ég á Edduverðlaunin. Þetta var nokkuð skemmtilegt. Allir í góðu skapi og svona þrátt fyrir að þessi hátíð sé svona furðuleg. Af hverju er þetta ekki t.d. haldið á tveggja ára fresti? Það er ekkert að marka "keppni" þar sem tvær myndir "keppa". Þetta er heimskulegt... en það er annað mál.
Hitti Fúsa handboltastrák.Það er töluverður stærðarmunur á mér og Fúsa. UMTALSVERÐUR. Ég næ honum sirka upp í mitti. Sigfús er 198 cm. Hann segist aldrei hafa hitt mann sem er minni en hann sjálfur...kannski hærri, en ekki "minni". Við veltum því fyrir okkur hvað hann myndi gera ef hann mætti einum stærri og hann vildi ekki fara neitt sérstaklega út í þá sálma.
Fyndið...þeir stóru menn sem ég þekki hafa ekkert gaman af því að hitta menn sem eru stærri en þeir. Vita ekki alveg hvernig þeir eiga að vera. Kunna bara að vera þessi eini stóri.
Í ársbyrjun deitaði ég rauðhærðan strák sem er 194. Við skruppum einu sinni saman í leikhúsið með vinnufélögum mínum héðan úr íþróttahreyfingunni og þar þurfti hann að sitja við hlið eins sem er 198 cm. Honum fannst það pirrandi. Mér fannst það fyndið.
Persónulega hef ég engan metnað sem gengur út á það að vera sú minnsta og er mjög sátt við mína sentimetra hvort sem er ein og sér eða í samanburði við annara manna sentimetra.
Systir mín er reyndar mikið minnst og það er mjög flott. Hún er 150 cm en í fullkominni samsvörun. Eins og álfur. Og svo á hún pínulítinn hund. Kannski að ég reyni að kynna hana fyrir Sigfúsi?
Þau yrðu dásamlegt par.
|