sunnudagur, nóvember 16, 2008

Rumskað úr rotinu

Ég ætla að svara athugasemdunum við færsluna hér að neðan með þessum orðum:

Auðvitað á að kjósa aftur. Það er alltaf kosið aftur. Þannig virkar þetta. En persónulega finnst mér að það verði að gera mikið meira en að kjósa og þykir ekki skynsamlegt að ana að neinu. Hvað þá í æsingi.

Það þarf að búa til nýtt kerfi sem tekur mið af smæð þjóðfélagsins. Það þarf að gera frábær plön og fara svo eftir þeim og þetta tekur sinn tíma að útfæra. Kerfið sem var búið til eftir að Ísland fékk sjálfstæði virkaði kannski ágætlega fyrstu tíu árin en svo fór að halla undan fæti. Þetta hefur aldrei nokkurntíma virkað almenninlega og alltaf verið gegnsýrt af spillingu og valdaklíkum. Davíð og Geir eru svo langt frá því að vera fyrstu stjórnmálamenn landsins sem tilheyra slíkum klíkum. Fólk sem reynir að telja sjálfu sér trú um það er í afneitun. Var ekki eitthvað sem hét Sambandið hér á árum áður? Hvað var það? Hóst*

Það þarf að gera eitthvað alveg nýtt sem tekur mið af breyttu þjóðfélagi og breyttum heimi. Og ef maður vandar sig ekki er hætt við að rangar ákvarðanir verði teknar. Ástandið þarf að róast aðeins áður en það verður kosið upp á nýtt í kerfi sem ætti ekki að vera endurtekning af sama kerfi, bara með öðru fólki.
Fólk er nefninlega og verður alltaf breyskt og þetta þarf að hafa í huga, sérstaklega hjá svona lítilli þjóð -eða ættbálki eins og ég kalla okkur.

Í raun  finnst mér brillíant að fólk sé að mótmæla spillingunni og valdaklíkunum þó að ég sé á sama tíma pínu yfirlætisfull af því ég hef svo lengi haft skoðanir á þessu og get rakið það í gegnum þetta blogg sem ég hef skrifað sl. sex ár.  Ætli ég sé ekki fyrir löngu komin á fimmta stigið? Fór í gegnum mikið sjokk árið 1997 þegar ég flutti til baka frá Danmörku. Fór tímabundið í afneitun og var svo reið alveg heillengi... skrifaði um "frímúrara" og hjólhýsi og olíusamráð og Árna Johnsen... en var einhvernveginn ein að þusa hérna ár eftir ár.

Svo núna er allt komið í klessu og líkt og alkinn sem vaknar í ælupolli með allt niðurum sig í einhverju porti og ákveður að fara í meðferð er þjóðin tilbúin að fara í meðferð. Taka sporin. Gera reikningsskil og byrja nýtt líf. Og líkt og þjakaða eiginkonan sem er búin að bíða þess að eitthvað róttækt gerist hoppa ég nú og klappa en á sama tíma veit ég að  það er hægt að gera þetta ýtarlega og að yfirlögðu ráði og það er hægt að gera þetta í æsingi og hasar. Hvor leiðin ætli skili betri árangri til frambúðar?

Erum við ekki annars að hugsa til frambúðar?

Ást og friður

PS. Færsluna hér fyrir neðan skrifaði ég seint í gærnótt og sé það núna að hún er kannski svolítið óskýr :)

PSS. Friðrik Jónsson er sammála