Vonandi eru þeir kysstir
Það er eins og að standa í miðjum sirkús að fylgjast með þessu skrítna skrípói sem er í gangi núna. Margir í tómu fári yfir peningunum sínum og öllu því slæma sem gæti gerst ef það gerist ekki eitthvað sem enginn veit samt alveg hvað er. Létt hystería sýnist mér.
Sjálf er ég róleg eins og pollur.
Í fyrsta lagi veit ég að allar kynslóðir verða fyrir einhverju svona á sinni tíð. Þannig er það bara og hefur alltaf verið. Það gerist eitthvað stórt, óviðráðanlegt, eitthvað sem maður getur ekki brugðist öðruvísi við en að reyna að bjarga sér einhvernveginn. Fullt af fólki í þessum heimi hefur þurft að lifa í gegnum stríð. Þurfa að bjarga sér í því. Aðrir hafa þurft að berjast við plágur af öðru tagi. Kannski náttúruhamfarir. Núna eru peningalegar náttúruhamfarir í gangi en ég held að það sé þó skárra en að verða fyrir flóðbylgju eða jarðskjálfta á skalanum 8. Peningar koma og fara. Ríkir verða fátækir og fátækir ríkir.
Það sem virðist þó einkennilegast við þetta er að á bak við tjöldin situr geðstirður kóngur sem kunni illa við að fá nýjan prins í ríkið sitt.
Ég er með Mannlíf hér á borðinu þar sem Davíð og Jón Ásgeir aurgoði eru saman á forsíðu (samsett mynd off kors) og titlaðir valdamestu menn landsins.
Það virðist vera að sá gamli hafi aldrei kunnað vel við að hafa "valdamestir" í fleirtölu. Hann hefur ekki sofið vel á nóttunni eftir að aurgoðinn fór að færa út kvíar sínar og það er svolítið skrítið að við skulum telja okkur geta rakið aðgerðir Seðlabankastjórans til innbyrgðar gremju í garð þessara manna. En Shakespear vissi sitthvað um kónga og mannlegt eðli... og þetta er víst ekkert nýtt heldur.
Vonum bara að þeir fái kossa heima hjá sér og muni að drekka ekki of mikið kaffi.
|