fimmtudagur, október 23, 2008

Veistu hvað þetta er hættulegt?

Mér fannst áhugavert að heyra hversu mikið hann Darling ítrekaði við Árna Matt að það að "borga ekki" væri stórhættulegt fyrir orðspor þjóðarinnar. Þetta virkaði eins og hótun.
Af hverju ætti einn fullorðin fjármálaráðherra annars að patrónísera annan fjármálaráðherra á þennan hátt? Að spyrja hann oftar en einu sinni hvort hann skildi alvarleika málsins. Ég myndi upplifa þetta sem yfirlæti af verstu gerð.

Næsta aðgerð herra Darling var alveg í takt við hótunina:

“They have no intentions of honoring their obligations here”... sem vitanlega rústar orðsporinu á no-time.
Hann sagðist bara hafa fólk bíðandi eftir svörum frá sér og ákvað að koma þessu svari svona hressilega frá sér.

Darling hafði reyndar heyrt hitt og þetta í svörum Árna. T.d. við erum búnir að setja lög, ætlum að reyna að styrkja tryggingasjóðinn, FME ættu að tala við ykkar FME, við þurfum að rækta garðinn okkar fyrst... en Darling þvingaði fram skýlaust svar um hvort það væru til peningar fyrir þessu.
Hann fékk ekkert skýlaust svar og túlkaði það sem svo að það væri ekki á dagskrá að standa við skuldbindingar. Hann vildi vera kúl í augum þjóðar sinnar og ákvað að púlla töffarann á þetta.

En þetta er asnalegt mál. Ég vissi ekki af Icesave batteríinu fyrr en fyrir nokkrum vikum. Því síður vissi ég bankinn væri ekki öruggur eða að ríkið hefði gengist upp í einhverskonar ábyrgð fyrir viðskiptaháttum þeirra. Eða... að fjármálaeftirlitið hefði samþykkt þær "reglur" sem þeir vildu fara eftir.

Ég veit reyndar að hlutverk FME er að sjá til þess að bankarnir fari eftir lögum og reglum um starfsemi fjármálastofnana en það sem þessar fjármálastofnanir (bankar) gera til að bregðast við því er að ráða slynga lögfræðinga til að fara í kringum þessi lög. Hring eftir hringamyndunar hring.

Kannski að starfsmenn FME hafi liðið fyrir að vera ríkisstarfsmenn með þak á launum sínum? Ég veit það ekki. Ég veit allavega að það hefur eitthvað stórkostlegt klikkað í þessu apparati sem og í löggjöfinni í kringum það. Ekki nægar eða óskarpar reglur. Kannski gafst ekki tími til að semja lögin meðan bankarnir voru á harðaspretti með nýjar og "spennandi" aðgerðir? Hugsanlega voru þau of gömul og náðu ekki yfir konsept eins og "sex sinnum stærri en hagkerfi þjóðarinnar"?

  • Nú búið að reikna það út að ef við "borgum" þá muni hver Íslendingur skulda sex milljónir.
  • En það eru samt bara 180.000 Íslendingar í vinnu þannig að þetta eru í raun 12 millur á haus.
  • Um leið og við eigum að borga, missir fólk vinnuna og allt hækkar. Matur, neysluvörur, allt... en það sem hækkar allramest eru vextirnir á lánunum sem þessir bankar svo fúslega veittu okkur á síðustu árum og hver er ekki með lán?
Þetta ástand bíður ekki upp á annað en að allir sem valda vettlingi fari í burtu til annara landa, til dæmis aftur til Noregs. Back to the roots. Þá verður lítið eftir af ungu fólki á Íslandi sem vinnur fyrir skuldunum.
Þá verða hérna fátæk gamalmenni, útgerðarmenn, álver og þýsk krútt sem eru búin að hlekkja sig við álverin.

Ef ég réði þessu þá væri ég búin að setja saman utanaðkomandi her af endurskoðendum og sérfróðum lögfræðingum til að fara yfir allt málið eins og það leggur sig. Skoða hver kom "okkur" í skuldasúpuna, hvernig þetta átti sér stað. Hver klikkaði og hvernig. Hvað þarf að borga mikið og hvernig meikar sens að borga það. Dómstólar ef þess þarf.
Til að borga á svo fyrst og fremst að nota öll fyrirtæki og allar eignir þeirra sem komu okkur í klípuna. Frysta og selja svo eftir bestu getu.

Ef það verður ekki gert þá verður eflaust kveikt í Fríkirkjuvegi 11 og bölvun lögð Bónusfeðga, Björgúlfa og allt þeirra slægt um komandi kynslóðir. Svo ekki sé minnst á komandi kynslóðir annara sem tilheyra þessum ættbálki er við köllum íslendinga.

Hegðun stjórnmálamanna klakans er svo annar kafli sem minnir mig helst á hirðina í Lísu í Undralandi. Rugluðu drottninguna sem vissi ekki hvort hún var að koma eða fara og hirðmenn hennar. Allir hlaupandi í hringi og enda svo í hrúgu á skákborðinu.

Það þarf að stilla skákinni upp. Það spilar enginn svona.

Við þurfum drottningu í góðu jafnvægi. Rólega og yfirvegaða drottningu.

Sjálfri líður mér eins og Lísu í Undralandi. Ég veit ekkert hvað gerist næst. Ekki frekar en þú.

Veit bara að þetta ferðalag verður mjöööög skrítið.