Bollur
Ég vaknaði kl 06:50 í morgun og blandaði saman deigi í bollur.
Á meðan deigið lyfti sér fór ég í fötin og þvoði hausinn. Svo hnoðaði ég deigið með dóttur mína masandi á borðinu mér við hlið. Edda var gífurlega spennt enda leikfangadagur á leikskólanum. Ég sagði henni að það væri bolludagur í vinnunni. Allt sem endar á -dagur og -stjóri, meikar mikið sens fyrir henni. Þannig er það þegar maður er 4 ára.
Lét bollurnar í ofninn. Þær voru í korter að bakast. Að henda þeim í poka var það síðasta sem ég gerði áður en ég ók af stað í vinnuna svo þegar ég kom á starfsmannafundinn voru þær enn heitar og mjúkar og fínar.
Og þetta gladdi mannskapninn. Það er fátt matarkyns sem gleður jafn mikið og nýbakað brauð með sméri og osti.
Við brauðbakstur hef ég aldrei notað uppskrift en þetta er einhvernveginn svona:
Sjóða vatn í katli
Hella vatni í skál (ca 2 bollar) og láta hunang og salt út í. Smakka þar til það kemur gott bragð. Ekki of dauft og ekki of sætt.
Kæla vatnið niður þannig að það verði ilvolgt.
Bæta c.a. 2 tsk geri útí og láta það leysast upp í svona 5 min.
Blanda saman hveiti og heilhveiti og lyftidufti (ca 2 stórar tsk) í skál og hella því svo út í gervatnið. Hræra með gaffli og bæta eggi og olíu út í þannig að deigið verði mátulega blautt og meðfærilegt.
Láta hefast í ca 20 min.
Hnoða og nota til þess hveiti svo maður verði ekki rosalega klístraður á fingrunum. Búa til bollur eða flute, eða brauð eða hvað sem er og láta standa á plötunni í 5-10 min. Bleyta að ofan með vatni, mjólk eða eggi (mátt velja, ég nota vatn) og skreyta kannski með fræjum.
Baka á svona 200 í korter. Maður sér það á bollunum hvort þær eru tilbúnar eða ekki.
(Það er gott að setja vatn í ofnskúffuna og hafa hana neðst. Þá myndast raki í ofninum og bollurnar verða ekki þurrar.)
Ég mæli með því að fólk noti ekki endilega uppskriftir við svona iðju. Það er kannski hægt að hafa hana til hliðsjónar einu sinni en eftir það á maður að standa á eigin fótum í brauðgerð. Annars verður þetta alltaf of mikið mál og að smella saman einu brauði á ekki að vera mál.
Kveðjur,
M. Stewart
|