Kosningar á 21 öld
Það setti þetta einhver sem nafnlausa athugasemd við færsluna hér fyrir neðan. Þar sem það eru nokkuð fínar hugmyndir þarna (ásamt útfærslum af skosku hugmyndinni ofl) finnst mér þetta eiga heima hérna uppi.
Þessi Einar Björnson á það skilið að maður taki ofan fyrir honum. Að kjósa út þingmenn er hrein fegurð og að hætta að skipa pólitískt í stöður innan stjórnkerfis er að sjálfsögðu eina vitið. Þetta hefur verið alveg kolruglað þetta skipulag hérna.
"Flokkakerfið eins og það er í dag er því miður liðið undir lok og það sama gildir með Íslensku krónuna!
Hvað er til ráða?
Einar Björnsson kemur með góða punkta hjá Agli eins og
- Gera landið að einu kjördæmi,
- Koma á þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mikilvæg stórmál,
- Gera almenningi kleyft að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu,
- Kjósa persónur í stað flokka,
- Gera kjósendum kleyft að kjósa þingmenn út ef þeir standa sig ekki í stykkinu eða eru uppvísir að spillingu,
- Hætta að skipa pólitískt í stöður innan stjórnkerfis, hvort sem um er að ræða banka, fjölmiðla, lögreglu, dómskerfi o.s.f.v.
- Koma á gagnsæi í stjórnkerfinu öllu.
Síðan hef ég verið að spá í eftirfarandi í nokkur ár:
Nú þarf bara algjörlega nýtt kerfi (internetið) þar sem hægt væri að velja samstilltan hóp af hugsjónarfólki (kjósa persónur) þar sem þessar hugmyndir væru grunnurinn að nýrri stefnuskrá. Lög hópsins þyrftu síðan að vera þess eðlis að flokkadrættir, misnotkun á valdi og fjármagni væri gert illmögulegt.
Öll vinna hópsins yrði fyrir opnum tjöldum, þar sem kjósendur gætu fylgst nákvæmlega með í rauntíma þeim verkefnum sem verið væri að vinna og framkvæma á hverjum tíma (viðveru-, verk-, vinnu- og kostnaðarbókhald). Hér mætti nýta tölvutæknina og internetið eins og bloggheiminn til að stýra ákvarðanatöku varðandi framsetningu á nýjum reglum (á wikipedia formi).
Skipaðir yrðu tillögu- og umræðuhópar (forum bb3) þar sem væri hægt að vera með lokað kosningakerfi (1 X 2). Einnig væri alltaf hægt að fylgjast vel með því sem væri í gangi á hverjum tíma og hvað væri framundan (ToDo listi)
Með þessu væri hægt að vera með opið og mjög skilvirkt kerfi þar sem allt væri á borðinu og sæist hvað hver væri að vinna. Þar gæti almenningur fengið að kjósa um hvernig það vildi að þeirra eigin greiddum sköttum væri skipt á milli einstakra liða í ríkisútgjöldum. Barnafjölskyldur myndu þá leggja áherslur á leikskóla og skólamál ... á meðan eldra fólk leggur áherslu á heilbrigðismál, bændur og sjómenn áherslu á sín mál og svo mætti lengi telja og auðvita allt innan ákveðins ramma.
Þannig mætti koma með nánast 100% lýðræðislega skiptingu á fjármagni og greiddum sköttum.
Þýðir þá lítið að koma á eftir og segja því var þetta gert svona en ekki einhvernvegin öðruvísi!
Kerfið mætti síðan þróa með ýmsum hætti þannig að kaup, sala, framkvæmdir á vegum ríkisins væri stjórnað með sama hætti.
Jafnvel væri hægt að framkvæma dóma og leysa smærri mál. Möguleikarnir eru nánast endalausir.
Þetta myndi þýða að almenningur kæmi beint að öllum ákvarðanatökum í nánast flestum málum og er þá ekki við neinn að sakast eftir á. Með þessu móti væri hægt að eyða nánast milliliðum (þingmönnum) og spara samfélaginu háar upphæðir."
Jebb... soldið sniðugt.
Þá er það bara spurningin. Ertu Björk eða Björn Bjarna. Framsýn eða afturhaldsseggur? Töff eða púkó?
|