laugardagur, október 18, 2008

Höldum kúlinu

Í gær fór ég í viðtal hjá bandarískum kvikmyndagerðarmönnum sem eru að gera heimildarmynd um kreppuna okkar. Ég talaði í svona hálftíma. Lét gamminn geysa. Þau voru rosa hress með mig. Sögðu að ég hefði meikað meira sens en forsetinn, Steingrímur Joð og allir hinir... (kudos til mín). Það hefðu allir verið svo uppteknir við að halda andlitinu og stýra ímyndinni að það hefði ekki komið neitt bitastætt upp úr þeim. Allir alltaf að hugsa um stöðuna sína. "Bíddu. Hver er ég? Já, forsetinn... best að vera hann"

Þetta var mjög gaman. Svo lenti ég í mat með blaðamanni frá Times og Sunday times sem er líka hérna til að skrifa um kreppu og fleira. Við erum báðar jafn hissa á þessu rugli milli Bretlands og Íslands. Bretland er það nálægt hjarta mínu að ég er meira á heimavelli í London en á Akureyri. Stríð milli Bretlands og Íslands er eins og stríð milli Reykjavíkur og Selfoss í mínum huga. Alveg út í hött.

Og fólk sem tekur þátt í því að skrifa undir "Ég hata Gordon Brown" lista eða baular út einhverju yfirlýstu hatri í garð "Breta" er einfaldlega að gera okkur öllum verra. Sá sem heldur kúlinu er ALLTAF sigurvegari... og því held ég að við ættum undantekningarlaust ÖLL að halda kúlinu og láta ekki draga okkur niður í æsing og reiði. Það hugsar enginn skýrt þegar reiðin sýður í hausnum. Það er ekki hægt.

Höldum kúlinu og komum flottust út úr þessu. Verum mjúk áðí. Svöl eins og samúræjar sem kunna að fella andstæðinga sína á þeirra eigin afli. Ekki æst á móti eins og Silvía Nótt á kóki.