miðvikudagur, október 08, 2008

Framtíðin er í orkunni

Nú ætla ég að spá aðeins í spilin mín... Það sem gerist og það sem þarf að passa. Byrja á því sem er mér efst í huga:

Um leið og bankastjóri Landsbankans talar um að við verðum að fara að nýta orkuauðlindir okkar (mikið áhugamál mitt) munu Rússar, sem hingað til hafa fengið allar sínar tekjur af olíu, sýnt einhvern áhuga á því að lána okkur peninga.

En málið er... noget for noget, eins og Danir segja. Þar sem jarðefniseldsneyti fer hratt minnkandi á jörðinni hafa margir áhuga á að finna, og virkja, annarskonar orku. Kannski eru Rússar búnir að sjá góða möguleika hér á Íslandi? Möguleika sem við höfum enn ekki náð að virkja til fulls. Möguleika sem þeir munu fara fram á að verði nýttir til að endurgreiða þeim lánið með einhverskonar skilmálum sem enn eru ekki ljósir? Kannski siglingarleið um norðursvæðið en hugsanlega eitthvað fleira.
Kannski eru olía og gas þarna uppfrá? Eitthvað hef ég heyrt af því og hver veit hvað þeir sjá þar eða hvernig þeir hafa hugsað sér að koma að því? Sumir halda því fram að bangsi hafi verið bak við hugmyndina um olíuhreinsistöð í Dýrafirði... Við þurfum bara að stíga hægt til jarðar. Það er margt í þessu.

Og þetta eru smámunir miðað við það sem koma skal. Græna byltingin sem þegar er farin af stað á eftir að rísa hærra en nokkurn grunar nú árið 2008.

Gordon Brown skýrði fyrr á þessu ári frá aðgerðaráætlun sem miðar að því að auka innanlandsframleiðslu á orku um 15% skv kröfu EU. Samkvæmt þessari áætlun mun ríkisstjórnin hvetja til þess að vindmyllur verði notaðar við framleiðslu rafmagns og er reiknað með því að um 7000 myllur verði settar upp fyrir árið 2020 en það er tímaramminn sem EU hefur gefið Bretum.

Brown gerir ráð fyrir því að um 160,000 ný störf verði til við þetta og 100,000 að auki þegar ný kynslóð kjarnorkuvera líta dagsins ljós á næstu 12 árum en hann sagði að með þessu myndu norðursjórinn og strandhéruð Bretlands verða sambærileg uppspretta umhverfisvænnar orku og arabíuflóinn þegar kemur að olíu.


Hann talaði líka um að með iðnbyltingunni hafi orðið til stétt blue collar manna sem þá ruddu brautina en að framtíðin gerði ráð fyrir “green collar” störfum á nýrri, umhverfisvænni öld.

Hann sagði líka að með þessu myndu verða til ótal viðskiptatækifæri þar sem sala á orku yrði mun dreifðari og um leið myndi öryggi landsmanna aukast, þar sem hættur sem stafa af umhverfisvænni orkuframleiðslu eru umtalsvert minni en þær sem stafa af framleiðslu jarefnaeldsneytis.

Þetta er bara Brown. Auðvitað eru margir að hugsa það sama. Það býr enginn á landi sem er jafn vel að sér í nýtingu á umhverfisvænni orku og við hér á Íslandi (Bandaríkjamenn eru þó stærri í nýtingu á jarðhita. Hoover stíflan var byggð fyrir seinni heimstyrjöld og því erum við ekki brautryðjendur á því sviði. En við vitum ansi mikið um rafmagn.)

Með rafmagninu okkar framleiðum við í dag gegnum álver og járnblendiverksmiðjur en í framtíðinni getum við búið til svo ótal margt annað sem þarf ekki að vera risastórt. Það þarf bara að undirbúa með hagsýni og hámarksnýtingu í huga.
Við mokuðum t.d. hálfri milljón tonna af fiski upp úr sjónum milli 1950-60 og sigldum með hann til Bretlands til verkunar en nýttum hann ekki til fulls hér heima. Hversu miklir peningar ætli hafi tapast á því? Af svona mistökum á að læra og ekki endurtaka þau.

Það er óþarfi að setja upp brjálæðingslega orkufrekan iðnað, það má bara setja upp hvaða iðnað sem er. T.d. fjölbreyttari rafgreiningu á efnum, netþjónabú eða whatever. Möguleikarnir eru margir.
Og þá er kannski valid að minnast á það að sala á orku út í gegnum kapal er ekki raunhæfur möguleiki enn sem komið er, þar sem það er tæknilega erfitt og dýrt og ekki sérlega atvinnuskapandi til lengdar.
Atvinnuskapandi má gjarna vera lykilorð í þessu geimi. Bara að hugsa fram í tímann. Frekar langt takk. Því ekki viljum við Afríkustemmningu hérna þar sem fólk er að borga skuldir forfeðra sinna áratugum saman.

Talandi um langt, ég hef milku meira að segja en ætla að nema staðar núna þar sem bloggfærslur verða leiðinlegar þegar þær eru of langar.