Þetta verður allt í lagi
Það var gerð könnun á sjálfsmynd unglinga fyrir ekki svo löngu. Þau voru spurð að því hvað þau langaði að verða þegar þau yrðu stór og ótal mörg svöruðu -Fræg.
Þegar þau voru spurð fyrir hvað þau vildu verða fræg stóðu mörg á gati. Þau vissu það ekki. Vissu bara að þau vildu verða fræg. Semsagt, ætluðust til þess að fá útkomuna áður en orsökin á sér stað. Fyrst útkoma, svo orsök.
Viðhorf unglinganna má með einföldum hætti rekja til foreldra þeirra sem kaupa sér bíla, sjónvörp og ýmislegt fleira á lánum. Fara í fitusog og ætlast til þess að róandi töflur geti breytt líðan þeirra til frambúðar og gert þau ævarandi hamingjusöm =skyndilausnir.
Partur af skyndilausna-hugsuninni er að eiga erfitt með að dvelja í núinu. "Það eru alltaf einhverjar ytri aðstæður, eitthvað áþreifanlegt sem kemur til með að laga þetta á no-time."
Sagt er að hygginn maður reisi hús sitt á bjargi en heimskur á sandi. Það tekur lengri tíma að koma húsi fyrir á bjargi... en þó að eitthvað taki langan tíma þá þýðir það ekki að það sé verra.
Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég pistil í Fréttablaðið þar sem ég kvartaði undan hraðanum og viðurkenndi að ég væri farin að finna fyrir nostalgíu. Langaði aftur í ríkisrekna banka og innireykingar.
Mig óraði þó ekki fyrir að þessi óskhyggja mín myndi rætast að því marki sem hún hefur gert núna.
Það er eins og almættið hafi bænheyrt mig eins og skrattinn bænheyrði Faust. Ég hefði átt að vera aðeins nákvæmari.
Eða hvað?
Kannski er þetta allt í lagi? Það lagast alltaf allt og allt endar einhverntíma. Það eru bara lögmál lífsins.
En fólk er svo hrætt við breytingar. Það óttast það sem það þekkir ekki. Finnst yfirþyrmandi að þurfa að takast á við lífið á forsendum sem það þekkir ekki og hefur ekki reynt áður.
Margir sætta sig t.d. við ástlaus hjónabönd af ótta við að fara úr húsinu. Geta ekki sagt skilið við steypuna. Kremjast þess í stað inni í sér og "þreyja þorrann" þar til lífið endar.
Þannig viljum við ekki lifa í raun og veru. Við viljum fá allt fyrir peninginn. Við viljum fá það út úr lífinu sem það getur gefið okkur og ég veit það jafn vel og ég veit að ég er með fimm fingur á hvorri hendi (fingur sem pikka hér á lyklaborðið) að það að "fá allt fyrir peninga sína" í lífinu er ekki að sitja í sama húsinu, borga reikningana og sinna skyldum af skyldurækni en ekki af ást eða ástríðu.
Ef maður af einni eða annari ástæðu er búin að mála sig út í horn þá er ekki annað að gera en að stökkva, fljúga og treysta því að allt fari eins og það á að fara. Kannski ekki endilega eins og maður er búin að ákveða að það eigi að fara en það er allt í lagi -enda fær maður sjálfur ekkert alltaf bestu hugmyndirnar...
Þetta verður allt í lagi. Aðeins öðruvísi en alls ekki endilega verra.
Hér er færslan sem ég skrifaði fyrir ári:
MHG er aldrei þessu vant farin að finna fyrir framandi nostalgíu
Undanfarið hef ég verið haldin skrítinni nostalgíu. Hef verið að rifja upp árin þegar auð svæði voru víðs vegar um borgina og maður gat með nokkrum skrefum verið kominn "út í sveit"; þegar fólk á höfuðborgarsvæðinu bjó enn við ómalbikaðar götur, síminn var hlunkur á símaborðinu og símaskráin í símaskrárskúffunni. Þegar maður fór út á pósthús með sendibréf og pitsur komu frá Ömmubakstri.
Síbylju var ekki að finna á íslenskum útvarpsrásum en með lagni gat maður hins vegar stillt sig inn á langbylgju og hlerað samtöl sjómanna við eiginkonur þar sem; jaaaáá... og já, neinei voru megininntak samræðnanna.
Á þessum árum var ósköp lítið um offituvandamál og fólk reykti hvar sem það var. Það þótti meira að segja svolítið flott. Góðborgarar buðu upp á sígarettur heima hjá sér og svo var hlustað á Villa Vill, Lummurnar og Lónlí blú bojs.
Ég fullyrði ekki að þessi tími hafi verið betri en sá sem ég lifi núna, en ég held að hann hafi verið einfaldari. Held að við höfum öll verið nægjusamari á einhvern svona kúbverskan hátt, enda allt enn í eigu ríkisins og fáir að pæla sérstaklega í því.
Mig grunar að það sé ekki svo galið að reyna að lifa lífinu svolítið á sama máta og við gerðum þá, en njóta um leið kostanna sem báðir tímar hafa upp á að bjóða.
Skrifa tölvupóst en líka sendibréf. Plana hvað á að vera í matinn út vikuna en kaupa skyndifæði á föstudögum. Fá far í vinnuna, leyfa börnum að ganga í skólann. Hafa kók og skinku spari. Forðast að taka lán.
Það virðist nefnilega meira hafa breyst frá 1985 til dagsins í dag heldur en frá 1940 til 1985 og stundum eru breytingarnar svo örar að manni líður eins og örvæntingarfullum ketti í bíl sem ekur á 140.
Ketti sem vildi heldur liggja í gluggakistu, reykja rettur og hlusta á gufuna.
|