sunnudagur, október 12, 2008

Egill æstur og Jón rólegur. Why?

Egill Helgason hefur verið að taka á móti bréfum alla vikuna þar sem fólk lýsir persónulegum raunum sínum af bankabraskinu. Fólk sem hefur lagt í sjóðina og tapað öllu sem það er búið að spara um árabil. Allskonar fólk.

Egill hefur augljóslega tekið þetta nærri sér og verið mikið niðrifyrir þegar Jón Ásgeir mætti í myndverið til hans. Hann hafði fleiri spurningar en tíminn bauð upp á og stundum skaut hann sjö spurningum í einu á Jón Ásgeir sem sat þarna talsvert rólegur og yfirvegaður og fékk stundum ekki að klára að svara.

Fyrir áhorfendum kann það kannski að virka sem svo að hinn æsti hafi ekki eins sterk vopn í höndunum og sá sem er rólegur. Jafnvel þó að hinn æsti hafi réttara fyrir sér en þessi rólegi. Það hefði því komið betur út fyrir Egil ef hann hefði verið örlítið rólegri... en hver getur álásað honum? Og hversvegna var hann æstur og hinn ekki?

Hugsanlega er það vegna þess að Egill býr yfir því sem er kallað empathy á ensku: "Identification with and understanding of another's situation, feelings, and motives."

Jón Ásgeir býr hinsvegar að öllum líkindum yfir því sem kallast psychopathy: "Psychopathy is defined in psychiatry and clinical psychology as a condition characterized by lack of empathy".
Ég er ekki að segja að hann sé full blown pati, en snert af þessu þurfa margir menn að hafa til að ná eins "langt" og hann hefur gert í viðskiptum. Einn af eiginleikum patans er að vera detatched... fjarri "hinum".

Menn eins og Jón Ásgeir hugsa ekki um það hvernig flestir hagnast á því sem hann hefur fram að færa. Þeir hugsa um það hvernig þeir sjálfir hagnast. Það er þeirra markmið. Heimurinn fyrir svona manngerðum er stórt taflborð þar sem næstu fimmtán leikir eru hugsaðir fram í tímann. Ein stór straketía... svolítið eins og að spila RISK.Og þeim finnst það ansi skemmtilegt.

Hann var augljóslega með straketíu í viðtalinu við Egil. Hann hafði augljóslega ákveðið að kasta búmeranginu til baka í ríkið og halda því fram að ekkert af þessu hefði gerst ef ríkið hefði ekki tekið yfir Glitni. Hann hélt fast við þetta og  reyndi að eyða öðrum spurningum sem Egill bar fyrir hann. Að einhver ábyrgð lægi hjá honum sjálfum var fjarstæðukennt og bara til í hausnum á Agli Helgasyni.

Sjálf hef ég ekki tekið neina harða afstöðu í þessu. Tíminn á eftir að leiða svo margt í ljós en eitt er víst að það þarf utanaðkomandi aðila til að kryfja málið. Fólk sem hefur ekki sofið hjá eða verið gift eða unnið fyrir eða alist upp með neinu okkar. Einhver sem er ekki hluti af þessum 300.000 manna  ættbálki sem við köllum Íslendinga.

Við í litla ættbálknum erum nefinlega gegnsósuð af undarlega súru gildismati sem sést kannski á því að þingmenn sem hafa setið á Kvíabryggju fara aftur á þing og Tryggvi Jónsson, með níu mánaða dóm, fer aftur í bankastjórn. Við þurfum ráðgjafa sem er hlutlaus og hefur engra hagsmuna að gæta í neinu samhengi sem tengist þjóðinni. Og þá er ekki að finna hérlendis.