sunnudagur, október 12, 2008

Hægri og vinstri: Búið spil

Ég hef óskaplega mikið að skrifa um þessa dagana enda hefur það alltaf reynst besta leiðin fyrir mig til að átta mig betur á því sem er að gerast í kringum mig. Og það er mikið að gerast núna. Á hverjum degi gerist alltaf eitthvað nýtt.

Nú er ég að hugsa svolítið um þetta hrun kapítalismans eins og margir kalla þetta. Ég velti því fyrir mér hvað kemur í kjölfarið. Það er ljóst að kommúnismi virkar ekki og þegar kapítalismi virkar ekki heldur, hvað gerist þá? Hvert er hægt að fara þegar það er búið að afnema bæði vinstri og hægri úr orðaforðanum? Á maður þá að fara beint áfram, undir, afturfyrir eða yfir?

Mér hefur alltaf leiðst flokkapólitík og ég held að hún geri öllum meira ógagn en hitt. Um leið og þú ert búinn að ákveða að þú haldir með Liverpool hefurðu eiginlega afsalað þér réttinum til að halda með öðru liði, jafnvel þó að það spili betur.

Eina vitið er að taka bara afstöðu í hverju máli fyrir sig. Og mál eru jafn ólík og þau eru mörg. Sumt sem gerist í heilbrigðiskerfinu mætti einkavæða og annað ætti ekki að einkavæða. Á sumum stöðum væri heppilegt að byggja virkjanir og öðrum ekki. Að hafa bara tvo valkosti, hægri eða vinstri, er ömurlega þröngur kostur og því ætti að afnema þessa vitleysu.

Fólk verður líka svo kjánalegt þegar það stimplar sig inn í lið. Minnir mig á þegar ég var unglingur og við áttum í stríði við krakkana í Þinghólsskóla. Þinghólsskóli gegn Kópavogsskóla.

Þingmenn eru oftar en ekki að henda skít í hver annan á þeim forsendum að þeir tilheyra ekki sama flokki. Málefnin verða undir í þessu kjaftæði og gífulega mikill tími fer til spillis. Þetta á ekki við þegar fólk er komið yfir tvítugt. Að horfa á fullorðið fólk reyna að rægja hvort annað fyrir framan mann dregur úr trúverðugleika þess. Að leita lausna á alltaf að vera það sem er efst í huga hvers þingmanns og að hafa gelgjulegar skoðanir á öðru fólki og reyna að draga það niður á persónulegu plani á ekki við í þessu umhverfi.

En svo er kannski partur af stóra vandamálinu sá að stofnanirnar í hugum okkar eru hálfgerðir flokkar líka. Flokkar sem voru stofnaðir löngu áður en við fæddumst og því erfum við þessar hugmyndir án þess að vita hvort þær í raun og veru virka fyrir okkur eða ekki. Við bara fæðumst með þær. Erfðagildi kalla ég þetta. Það sem við höldum að mestu skipti í lífinu er hugsanlega ekki ákveðið af okkur sjálfum heldur erft í gegnum kynslóðir sem bjuggu við aðrar aðstæður.

Samkvæmt minni reynslu er lífið alltaf að breytast. Það er það eina sem maður getur garanterað. Lífið er eins og ský himins. Alltaf á hreyfingu.  Stundum eru breytingarnar örar, stundum deyr fólk frá manni án þess að vara mann við og stundum verður maður ástfanginn án aðvörunar.

Lífið bara gerist... og breytist... og maður sjálfur breytist og aðstæður breytast líka. Þetta er það eina sem maður getur alltaf verið viss um. Og nú held ég að það sé kominn tími á að finna upp nýjar leiðir í pólitík. Nýjar leiðir til að leysa málin.

Ég á mjög góða vinkonu sem á ættir sínar að rekja til Danmerkur og Tékklands. Fædd og uppalinn í DK en hefur jafnframt verið mikið í Tékklandi sem er jú fyrrum kommúnistaríki.
Við fórum í kaffi á Súfistanum í dag, deildum gulrótarköku og ræddum málin. Okkur fannst á vissan hátt eins og okkar tími væri kominn. Að það sem við höfum lært og pikkað upp á lífsleiðinni komi til með að nýtast nú sem aldrei fyrr.

Hún er arkitekt. Hefur alltaf átt í sig og á en aldrei tekið lán fyrir neinu og aldrei keypt það sem hún hefur ekki efni á. Við eigum það sameiginlegt að 97% húsgagna okkar koma úr Góða Hirðinum, fundust úti á götu eða voru gefin okkur. Við eigum það sameiginlegt að vera hvorki vinstri né hægrisinnaðar og við eigum það sameiginlegt að hafa stundum fundið fyrir því að gildismati annara hefur verið haldið að okkur eins og illa lyktandi tusku. Við eigum það sameiginlegt að leita alltaf að ódýrum en fallegum lausnum og leiðum og þurfa ekki mikið til að hafa það skemmtilegt. Í matarboðum okkar er ýmist boðið upp á kássu og kartöflumús eða kjötsúpu og kvöldin enda með leikjum og söng.

Ég held að við Theresa séum minna kvíðnar en margir þessa dagana en kannski breytist það ef maður fer að finna mikið fyrir kreppunni á eigin skinni? Og ef það breytist... þá er bara að leita að ódýrum og fallegum lausnum til að hafa það betra.