Ybbar ekki moggablogggogg
Hún Katrín.is var að skrifa um hvað moggabloggið væri slæmt. Ég er sammála henni. Það er ekki gott að "blogg" sé allt í einu orðið samnefnari yfir Sveinur Múladætur þessa lands af því blogg er í raun bara fólk að skrifa eitthvað sem aðrir geta lesið og það er ekki allt fólk í flísi og fellihýsi.
Byrjaði að skrifa á maggabest árið 2002. Þá hafði ég skrifað í bækur, á hverjum degi nánast, síðan árið 1987. Mér fannst það svo splendid að geta skrifað bara svona beint í tölvuna og hent því á netið. Áður en þessi síða tengdist inn á eyjan.is komu svona 60-100 gestir á dag að meðaltali. Núna eru þeir stundum 1000 á dag. Því miður gleymi ég því stundum að þetta er orðið svona offisíalt og held að það séu bara 100 vitleysingar með sama húmorinn og skilninginn og ég sem lesa það sem stendur á þessari síðu, eða vinir mínir eins og ..Siggi, Mörður eða Magga. Gleymi mér og segi negri og fita og vagina dentata og held að allir þekki mig og meininguna en dett svo í þá gryfju að fara að útskýra allt í löngu máli í kommentakerfinu fyrir þeim sem ekki skilja, misskilja eða skilja bara face value.
Kannski þarf ég bara að hætta þessu? Hætta að segja negri og fita og vagina dentata, eða segja það og útskýra svo alltaf strax á eftir að ég hafi einu sinni verið x kílóum of þung, að ég eigi svartar, íranskar og indverskar; anorexískar, of feitar, búlimískar, yndislegar vinkonur og að ég sé í raun yfirlýstur feministi -sem er allt satt, mjög satt og að í raun sé ég að pota. Af því mér hefur alla ævi þótt agalega gaman að pota. Fólk verður nefnilega svo krúttlegt og fyndið þegar það er reitt.
Held samt ekki. Annaðhvort ertu á sömu bylgju eða ekki. Annaðhvort langar þig að trúa góðu eða slæmu. Held ég verði bara að halda áfram að gera það sem ég geri og skrifa það sem ég skrifa. Hef svo lítinn áhuga á flokkapólitík að ég mun eflaust seint byrja að hripa um þau mál eins og flestir sem blogga via eyjan og ekki er ég að fara að greina frá daglegum athöfnum mínum í smáatriðum nema þegar ég skrifa í "Persónulega fréttabréfið".
Held að þetta haldi áfram að vera svona hitt og þetta, vangaveltur um mannlega hegðun, hópahegðun og félagslegar breytingar, neytendamál, einstaka pólitísk mál, liztir, menningu og minningar. Stundum stríðnispistlar og blammeringar á það sem mér finnst púkó, stundum ábendingar á það sem mér finnst fallegt, töff, sniðugt, gáfulegt, inspírerandi...stundum eitthvað annað.
Og mórall sögunnar er þessi: Ef þér finnst gaman: þá lesa. Ef ekki: þá þú bara lesa eitthvað annað.
*kossar*
|