Að guð láti ekki kjána verða ráðherra
„Þegar framleiðslan fer mestmegnis fram erlendis, er þá einhver ástæða til að vera hérna lengur? Bakkavör er með smá kompu suður í Keflavík þar sem þeir vinna með örfáum mönnum en þúsundir manna starfa fyrir þá í Evrópu og því spyr ég -Hvenær flytja þeir, og aðrir, sem svipað er ástatt um, starfsemi og höfuðstöðvar alfarið úr landi?
Þetta segir okkur að við verðum að búa til ákaflega gott fjárhagslegt umhverfi til þess að fyrirtækin fari ekki. Þau þurfa að sjá sér hag í að vera hérna. Ef þetta verður ekki gert þá er ekki hægt að stofna og reka fyrirtæki hér á landi sem getur keppt á alþjóðamarkaði. Það má ekki nappa af þeim fjármagnið samstundis. Á allri þessari gríðarlegu þróun, sem hér hefur orðið, má eins ætla að framhaldið verði þetta og það liggur við að ég setji bænirnar mínar í það að Guð láti nú ekki einhverja kjána verða ráðherra því að þá eyðileggja þeir þetta. Það verður ekki lögð næg áhersla á það hversu mikilvægt hagstætt skattaumhverfi er fyrir alla framleiðslu því að annars fer hún bara úr landi og þannig er það,” segir Steinar og það leynir sér ekki að hann metur alvöru málsins mikla.
Þetta er brot úr viðtali sem ég tók við Steinar Steinsson, fyrrum skólastjóra Iðnskólans í Hafnarfirði, í afmælisrit Málms sem var gefið út á síðasta ári og ég ritstýrði fyrir Samtök Iðnaðarins.
Steinar er að nálgast nírætt og það var mjög fróðlegt að tala við hann og heyra frásögn og skoðanir hans á ýmsum málum. Viðtalið er hægt að lesa hér ef þú skyldir hafa áhuga, en persónulega finnst mér alltaf mjög gaman að sækja fróðleik af þeim sem hafa hálfrar aldar forskot á mig sem jarðarbúa. Tala nú ekki um ef það eru vel gefnar manneskjur eins og hann Steinar Steinsson.
|