þriðjudagur, júní 10, 2008

Ertu stelpa eða strákur?

Sem barn var ég daglega spurð að því hvort ég væri stelpa eða strákur. Skil eiginlega ekki hversvegna, af því ég var agnarsmá, en ætli rafmagnaða stutta hárið, áhugaleysi fyrir dúkkum og strákslegt viðmót hafi ekki villt öðrum börnum sýn.
Það gæti líka spilað inn í að mín helsta fyrirmynd í lífinu í þá daga var frændi minn, þremur árum eldri en ég (sjá færsluna fyrir neðan).
Hann dýrkaði ég og dáði eins og lítil stelpa dýrkar eldri bróður, eða eldri frænda. Allt sem honum þótti töff þótt mér töff og þetta hélt áfram svona til fjórtán ára aldurs, en það var einmitt þá sem ég fór að finna meira fyrir því af hvaða kyni ég væri. Stundum var það eins og að ganga á ósýnilega rúðu og meiða sig í nefinu. Stundum skemmtilegt.

Eitt asnalegasta atvik sem ég hef lent í á minni annars viðburðasnauðu ævi var svo þegar kona sem sá um þáttinn Djúpu Laugina hringdi og bauð mér að taka þátt.

Þann 23 október árið 2003 fór þetta símtal fram:


M-Halló, þú varst að hringja í mig
B-Já, hver er þetta?
M-Ég er kölluð Magga...
B-Já, ég heiti Bryndís og sé um djúpulaugina... mér var bent á að hafa samband við þig.... Málið er það að næsti þáttur hjá okkur verður með svona tvíkynhneigðu þema.
M-Ég skilgreini mig ekki sem tvíkynhneigða (getátoffmælæf)
B-Neeeeihhh, en mér var bara bent á að hringja í þig ef þú skyldir þekkja eitthvað skemmtilegt fólk (eitthvað að reyna að afsaka sig)
M-Já, ég þekki fullt af samkynhneigðu og eflaust tvíkynhneigðu fólki... en ég efast um að það vilji koma í þennann þátt. Ég myndi aldrei gera það sjálf. Hver gaf þér númerið hjá mér? Var Sindri eitthvað að djóka?
B-Ég er bara búin að vera að hringja út um allt og í alla. Ég man ekki hvar ég fékk númerið þitt en það var ekki hjá Sindra.
Mig vantar bara einhverja hressa stelpu sem er til í að fara út með strák sem er tvíkynhneigður (einmitt, það eru örugglega margar spenntar fyrir því...)
M-Nei, veistu það ég efast um að fólkið sem ég þekki sé á þessum buxum. Held bara því miður að ég geti ekki hjálpað þér. Þú ert ekki að róa á rétt mið núna.
B-Ehhhh neihhh... alltílæ (mjööög svekkt).
M-Bless
B-Bless, bless

***

Já, þannig fór um sjóferð þá. Stelpustrákurinn, eða strákskonan, er ekki tvíkynhneigð þó ég sé drengur góður. Ég er svo tvíkynhneigð að ég er farinn að horfa á fótbolta, einungis vegna þess að það er svo hressandi fyrir kynhneigðina. Sérstaklega var leikurinn Grikkland-Svíþjóð hressandi. En ég kann að nota karbít og bora í vegg og niðurhala og nota tölvur og bakktrakka ip-tölur.

Góðar stundir