sunnudagur, apríl 20, 2008

Laugardagur í lífi mínu

Dagurinn minn (út um dyrnar) byrjaði á því að ég brá mér á fund hjá guðspekifélaginu þar sem haldinn var fyrirlestur um tíbetska hugleiðslu. Þar var ægilega gott að koma. Kökur og kaffi í boði félagsins og frábær fyrirlesari að nafni Dagmar Vala Hjörleifsdóttir, en sú er dýralæknir sem hefur stundað þessa hugleiðslu til fjölda ára.

Undanfarið hef ég orðið æ sannfærðari um að hugleiðsla geti skipt sköpum fyrir mann, til að ná skýrari hugsun, núllstilla og ná betur áttum.
Það er svo margt sem dynur á manni og alltaf er hugurinn sístarfandi. Það er ekki hægt að hugsa ekki. Það er alltaf eitthvað í gangi þarna uppi og jafnvel þegar maður situr og á að vera að njóta einhvers, þá fer hugurinn á eitthvað flakk og neitar að vera á staðnum. Sífellt verið að spóla til baka, rifja upp eitthvað sem var sagt, gert, eða ógert... plön, markmið, hitt og þetta... alltaf skal eitthvað fara af stað í kollinum. Kollinum sem virðist stundum hafa sinn eigin sjálfsstæða vilja, burtséð frá því hvað eigandanum, manns innri manni, finnst um málið.

Hugleiðsla leiðir hugann. Teymir hann í þá átt sem stjórnandinn vill að hann fari. Utanaðkomandi áreiti skiptir þá engu, hugurinn bara hvílist og neitar að taka þátt í þessum eltingarleik við hugsanirnar. Gæti maður tamið sér að slökkva á kollinum, í svona tíu mínútur í senn, kvölds og morgna, þá held ég að tilveran myndi á margan hátt verða manni (mér) auðveldari. Ekki að hún sé ákaflega strembinn, en maður getur alltaf á sig blómum bætt og blómið sem ég leita að þessa dagana gengur út á meira Zen og minna ve-zen.

***

Eftir hugleiðsluna fór ég á útskriftarsýningu nemenda listaháskólans. Hún var sérstaklega vönduð og mikið um góð verk. Sérstaklega var verkið eftir Frímann Kjerúlf stórkostlegt. Held að sá drengur eigi framtíðina fyrir sér í þessum bransa ef hann heldur rétt um spaða og spil.

***

Að lokinni sýningu var skreppt á kaffihús þar sem við hittum hinn geðþekka gítarleikara Pétur Hallgrímsson. Sá hefur stundað Zen hugleiðslu í mörg ár og fræddi hann okkur fram og aftur um þau mál. Það er svo gaman hvernig lífið skaffar manni alltaf þá þekkingu sem maður sækist eftir að fá. Næst er það eflaust kynningarfundur um Zen... hjá þeim klúbbi. Eitt leiðir af öðru.
Pétur sagði að Zen væri mjög einfalt system og að það útskýrði kannski af hverju 75% iðkenda væru karlkyns. Karlar eiga jú víst að hafa eitthvað á móti flækjum. Tíbetskur búddismi getur verið skrambi flókinn á köflum, en at the end of the day þá gengur þetta samt allt út á það sama. Meira Zen, minna ve-zen.