sunnudagur, apríl 20, 2008

Laugardagurinn, annar hluti: Galdragól og yfirlið

(klippti þetta neðan af færslunni fyrir neðan af því hún var of löng>

Bömmer laugardagsins voru tónleikarnir í Norræna húsinu. Þangað gerðum við okkur ferð til að sjá hina stórskemmtilegu Fjallabræður, sem er þrælfínn og frjálslegur karlakór, skipaður ungum mönnum af ýmsum stærðum og gerðum.

Skemmtunin, (því þetta var skemmtun), byrjaði á því að Rxxx "kvenmannsnafn"-son, seiðkarl og textahöfundur kynnti það sem koma skyldi: Seiður og galdragól til heiðurs gyðjum úr norrænni goðafræði. Hann tilkynnti að þarna myndi verða framinn einhver galdur og að allir ættu að halla sér aftur í sætunum og taka við jákvæðu orkunni sem væri á leiðinni út í salinn. Ef maður vildi þá væri í boði að leggja hluti til að hreinsa á altari sem þau höfðu komið fyrir þarna á gólfinu. Mér datt í hug að fara með gemsann eða kreditkortið.
Auðvitað fór um mig pínulítill imbahrollur, en ég gerði mitt besta til að halda aftur af hrokanum og vera opinn og jákvæð (maður er jú alltaf að reyna).

Svo byrjaði þetta.

Fyrstur mætti seiðkarlinn í skikkju og með fjaðurkúst. Svo þrammaði karlakórinn í salinn og söng fallega. Það var gaman. Svo kom seiðkonan og byrjaði að syngja. Það var ágætt. En eftir svona 10 mínútur seig á ógæfuhliðina og þá var ekki lengur gaman.
Textarnir sem voru sungnir þarna til heiðurs Freyju og Frigg voru gersamlega ömurlegir og það var aðallega þessi seiðkonustelpa sem söng en ekki strákarnir sem ég hafði komið til að hlusta á. Hún stóð á miðju gólfi eins og strympa í Role Play fötum og barði á lærin á sér og handtrommu til skiptis meðan hún galaði texta sem hefðu passað vel í Dr. Phil eða Opruh þætti. Oprah í lopapeysu og á sveppum: "Gosbrunnur tjáningar streymir mér frá, það er ekkert sem aftrar mér, mitt orð það er já".... "Ég á það skilið að vera elskuð eins og ég eeer".

Við fórum að flissa. Konan fyrir framan sussaði á mig. Þrír fóru að hrjóta á bekknum fyrir aftan.

Hægt og rólega tæmdist loftið úr salnum. Mér varð ógeðslega heitt. Stelpan galaði. Textahöfundurinn tónaði. Þau lömdu heimagerðar tambúrínur og allt í einu... -leið yfir konu á fremsta bekk!
Og það var móðir sjálfs textahöfundarins sem féll í gólfið. Það grátbroslega er að hún datt akkúrat niður þegar galað var; "ekkert getur unnið mér meeein" (svo mikið fyrir þann galdur).
Það fór allt í pat. Söngurinn hætti. Fólk stóð upp. Panikk panikk panikk þar til aumingjans konunni var komið í stól og henni gefið ferskt loft. Þá rankaði hún við sér held ég. Fólkið fór aftur að syngja og gala, en við Gústa hlupum fram ásamt tveimur mönnum sem héldu þetta ekki heldur út.

Tek það samt fram að Fjallabræður eru yndislegir en yndislegir drengir geta lent í því að gera mistök, eins og allir...