Tröllið
Í nótt, þegar við liggjum sofandi í rúmum okkar, þá mun þessi rumska, kíkja yfir holt á hálendinu, fá sér sopa af fersku vatni og hugsanlega gera sér ferð inn í eins og einn draum.
***
Það er langt síðan mig hefur dreymt tröll. Mörg, mörg ár reyndar. Held ég hafi verið tíu eða ellefu ára. Lá í rúminu mínu í Skorradalnum og dreymdi að niður fjallið kæmi skessa hlaupandi. Skrefin voru svo þung að jörðin nötraði smávegis í hverju spori. Það var falleg sumarnótt, mildur regnúði af himnum. Hún stefndi út að hafi og var ótrúlega sterk og einbeitt á svipinn. Ég hrökk upp af þessum draumi, reisti mig í rúminu og leit út um gluggann sem var við höfðagaflinn. Veðrið var nákvæmlega eins og í draumnum. Grasið alveg eins grænt. Lóa á sama staur, en enginn skessa. Hún var eflaust bara kominn á leiðarenda.
|