Páskahret
Kalt. Syfjuð. Dagsþunglyndi í gangi. Hlusta á Coco Rosie sem ég hélt að væru óþolandi en það er samt eitthvað við að heyra ungar konur mjálma David Lynch-lega texta með barnaröddum. Hef skipt um skoðun og hef núna gaman af þeim.
Í gær sagði Kjartan vinnufélagi minn að ég væri óþolandi og ef hann lenti í hjónabandsvandræðum þá myndi hann aldrei nokkurntíma leita til mín. Kjartan spilar körfubolta, veit allt um íþróttir, drekkur líter af Pepsi Max á dag og heldur mest upp á Tom Waits af öllum tónlistarmönnum.
Ég hef andstyggð á aspartame og drykkjum eins og Pepsi Max sem eiga að höfða til einhvers sperrings í fólki. Ég veit ekkert um íþróttir (þó að ég vinni fyrir íþróttamafíuna) og ef það er einhver tónlistarmaður sem hefur alltaf farið í taugarnar á mér og mér finnst stórlega ofmetinn þá er það þessi hokni, "snobba niðrávið", moldríki Tom Waits. Þannig að þetta er rétt ályktað hjá Kjartani. No way.
Það sama er uppi á mínum andlega tening og hjá honum Sigga mínum. Ég er sátt við að vera af þessum ættbálki en taugar mínar út fyrir landsteinana ná ansi langt og hafa alltaf gert. Maður lifir jú bara einu sinni og þetta einu sinni er fáránlega stutt og því er það argasta synd að nota silfurspottann í að kaupa dót og borða snakk. Sem betur fer er ég á leiðinni til Feneyja eftir nokkrar vikur. Sem betur fer er ég að fara til London. Sem betur fer er ég að fara til Póllands, þó að mér finnist Pólland pínu morbid. Sem betur fer er ég ég...
Bráðaþunglyndið er ögn skárra.
Hér er falleg mynd. Hún er eftir Max Ernst. Hann drakk aldrei Pepsi Max:
|