laugardagur, mars 22, 2008

Frímúraralandið

Alveg frá því ég var barn hefur hið æðsta gildismat þjóðarinnar farið svolítið í taugarnar á mér. Enn fremur hafa þeir sem setja þetta gildismat farið í taugarnar á mér, en þá hef ég tamið mér að kalla "frímúrara" hvort sem þeir eru það eða ekki.

Íslendingar hafa alltaf verið óttalega miklir kapítalistar og plebbar. Svolítið eins og svarta þrælaþjóðin í Bandaríkjunum. Áratugum saman áttu þeir ekki neitt (öldum saman í okkar tilfelli) og um leið og frelsið var gefið þá var farið í að reyna að raka saman peningum og skreyta sig fyrir afraksturinn. Range Rovers og gullkeðjur eru viðmiðið í svertingjahverfinu South Central í LA en hér eru það Range Rovers og hjólhýsi.

Það gengur allt út á það að vinna og græða peninga hér á þessu litla skeri og ef maður er ekki að því þá er maður ekki mikils virði í augum hins almenna borgara. "Já, skáld segirðu... En hvað GERIRÐU?"

Skilningurinn á því að það eru til önnur verðmæti en peningar virðist oft afar takmarkaður. Hvort sem verðmætin felast í andlegum auði, frelsi eða þeim djásnum sem náttúran gaf okkur. Olíuhreinsunarstöð komið fyrir i Dýrafirði, sem er einn sá fallegasti á landinu, af því náttúra er ekki verðmæti heldur bara náttúra... en við getum sko "grætt" á olíuhreinsunarstöð.

Í æsku minni byrjaði ég fljótlega að taka eftir ákveðinni tegund af körlum í umhverfi mínu og stundum í sjónvarpinu. Karlarnir voru kannski vinir afa míns og maður sá þá í einhverjum boðum þar sem þeir sátu alltaf allir saman í hóp, burtu frá konunum.
Karlarnir hölluðu sér örlítið aftur, tottuðu blauta vindla og ræddu það hverra manna hinn og þessi væri eða hvernig hinn eða þessi tengdist hinum eða þessum. Þeir hlógu svona: hohohohoho... og voru allir ægilega valdsmannslegir, eða reyndu að vera það. Seinna meir þótti mér Davíð Oddsson vera dæmigerður svona karl. Hann var einhvernveginn sá sem virtist holdgerfingur þess sem ákvarðar hið æðsta gildismat -enda bara skáld í frístundum. (Ég vildi óska þess að hann hefði gert meira úr þeim hæfileika). Í dag hef ég tekið hann meira í sátt enda fölnar maðurinn í samanburði við tuttugustu og fyrstu aldar frímúrara og virðist stundum eins og skynsöm móðir þegar aðrir vilja míga upp veggi.

Gildismatið sem ég er að tala um, ef það skyldi hafa farið framhjá þér, er vissulega þetta að flest í lífinu sé fremur lítils virði ef ekki er hægt að græða á því peninga og því beri manni einhver siðferðisleg skylda til að eignast hluti og reyna að kaupa sem mest.
Það er líka einhvers virði að mennta sig, en ef maður menntar sig ekki til þess að geta útskrifast og farið svo að græða peninga þá er menntunin ekki mikils virði. Þannig hefur bókmenntafræði og listnám frekar takmarkaðan tilgang meðan hagfræði, viðskiptafræði og verkfræði mun skila meiru í punginn og gera mann þar með gildari lim í útópíu frímúraranna.

Og hver vill ekki samþykki þeirra?

Sjálf hef ég búið mér til mitt eigið gildismat í lífinu þar sem það varð fyrir löngu ljóst að gildismat frímúraranna átti ekki upp á mitt andlega pallborð. Hjá mér er það hátt skrifað að stunda ferðalög, það er hátt skrifað að eiga gæðastundir með þeim sem ég ann og það er hátt skrifað að vinna ekki brjálæðingslega mikið til að gæðastundirnar geti verið fleiri. Það er hátt skrifað að göfga andann og það er hátt skrifað að bindast ekki dauðum hlutum, losa mig við það sem ég nota ekki og safna engu. Ég get ekki klætt mig í föt sem ég passa ekki í, ég get ekki gert gildismat annara að mínu og ég efast um að allir geti gert mitt að sínu. Þó er eins og það sé gerð krafa um að gildismat frímúraranna sé það sem við eigum öll að fara eftir. Af hverju?