fimmtudagur, mars 20, 2008

Hættu að gráta Siggi minn, heyrðu ræðu mína

Sumir í kringum mig eru eitthvað að fárast og panikkera yfir því að það sé að koma kreppa. Sjálfri er mér nokk sama. Ég hef aldrei þurft mikið til að vera kát og kann að sníða stakk eftir vexti og vöxtum. Það er gaman að þurfa að hugsa aðeins um í hvað peningarnir fara. Maður þarf ekkert mikla peninga til að hafa það gott og skemmtilegt. Það er fínt að nota strætó og reiðhjól. Maður kemst vel leiðar sinnar þannig. Svo veit ég ekki betur en að listalífið dafni best í kreppu. Margt það sem mér hefur þótt skemmtilegast úr heimi mynd -og tónlistar hefur orðið til í svokallaðri kreppu: Í fyrsta lagi Dada-isminn og síðar stórbrotin snilld í arkitektúr sem varð til milli 1930-1940. Sjá Falling Water (fallegasta hús jarðar), Hallgrímskirkju og Chrysler bygginguna svo ekki sé minnst á pípandi snilld úr heimi djasstónlistarinnar (sem ég nenni ekki að þylja upp, notaðu gúgl). Jebb...

Ég á íbúð sem hefur mikið hærra verðgildi en það sem ég gaf fyrir hana árið 2005. Lánin af henni eru á 4.15 prósent vöxtum sem endurskoðast víst á fimm ára fresti. Það sem ég ætla að gera þegar endurskoðunin fer fram er að henda slatta af peningum inn á höfuðstólinn og lækka þar með vextina af þeim. Það vill víst svo skemmtilega til að uppgreiðslugjöld falla niður á sama tíma og vextir eru endurskoðaðir. Maður gerir það sem maður getur meðan maður getur það því svo er það hinn valkosturinn... að leigja dótið bara út og flytja til Thailands eins og snillingurinn Halla himintungl.

Hvað sem þessu öllu líður... þá held ég að það sé vond hugmynd fyrir háseta eins og þig og mig að velta sér eitthvað sérstaklega upp úr þessu og sjá bara svartnætti framundan...einmitt þegar það er að koma vor. Þá spilum við bara meira og förum í sund og bökum bollur og notum almenningssamgöngur eins og nágrannar okkar í Noregi (en þeir eru jú önnur af tveimur þjóðum heims sem eru skuldlausar).

Þetta er líka ágætt. Allt hefur sinn tíma. Að sukka hefur sinn tíma og að fasta hefur sinn tíma. Hér hefur verið sukkað ótæpilega undanfarin misseri. Svo mikið að flestum er í raun nóg um.

Nú skulum við fasta.