miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Magga maraþon

Ég var að byrja í nýrri vinnu í síðustu viku. Starfið felst meðal annars í því að sjá um vefmál fyrir ÍBR sem er skammstöfun yfir Íþróttabandalag Reykjavíkur. Nokkrar vefsíður heyra þarna undir, t.d. maraþonið og fleira. Svo ætla ég að ritstýra blöðum fyrir þetta ágæta batterí, ásamt fleiru.

Af skrifstofunni minni nýju er útsýni yfir Esjuna fögru. Það er ljómandi dásamlegt. Núna er ég að horfa á sól og regnboga og litla stráka að spila fótbolta.

Þar sem ég vann síðast, í Skaftahlíð, hafði ég útsýni, ef útsýni skyldi kalla, út á Miklubraut en sætið mitt var sirka í sömu hæð og bílarnir sem óku fyrir utan.
Þegar mann langaði að opna glugga og anda að sér lofti, þá tók við svifryksfnykur sem hefði hæglega getað gert örlítið léttari skepnu en mig krabbameinsveika á svona tveimur mánuðum. Því reyndi ég bara að hafa gluggan lokaðan... í það minnsta á álagstímum umferðarinnar.
Í sjálfu sér er Feng-shuíið þarna í Skaftahlíð nóg til að drepa hvaða munk sem er og því mesta furða að skapandi fólk geti enst við slíkar aðstæður. Ætli það megi ekki þakka sígarettupásunum? Þær reka þó liðið af rössunum og út í "ferska" loftið. Svona getur slæmt stundum verið gott... já já... usss...
Sjálf þakkaði ég honum Tryggva mínum góða geðheilsu en þegar hann fór til Noregs þá suðaði lagið -Allt er svo eymdarlegt án þín hér- í huga mér og ég var allt í einu ekki lengur í Matrixinu, með Skeggávalda í Áradal, Lísu í Undralandi... heldur við Miklubrautina í blautum, endalausum, Kafkaískum þriðjudögum.

En það er liðið. Núna er öldin önnur. Núna rek ég boltan á rauðum kjól og drekk eðalkaffi og horfi á Esjuna.

Hopp og hí.